Að flýta sér hægt í atvinnumennsku

Í sumar kom góður gestur í heimsókn til Breiðabliks, barna og unglingaþjálfari frá Real Madrid. Hann gaf ungum og efnilegum leikmanni sem var að velta fyrir sér atvinnumennsku áhugavert ráð, „Af hverju viltu fara til þessa liðs? Liðið sem þú ert í er að ala upp og selja leikmenn til liða í Evrópu og Skandinavíu. En ekki liðið úti“.

Að verða atvinnumaður og hvað þá A landsliðsmaður er flókið ferli og einstaklingsbundið. Í síðasta A landsleik voru framherjar íslenska liðsins Kolbeinn Sigþórsson sem fór utan til AZ Alkmaar sautján ára gamall með sex meistaraflokksleiki með HK á bakinu, Jón Daði Böðvarsson sem fór tvítugur til Viking Stavanger eftir 80 meistaraflokksleiki með Selfoss og Viðar Örn Kjartansson sem var seldur til Valerenga 23 ára gamall eftir að hafa leikið 139 meistaraflokksleiki með Selfoss, ÍBV og Fylki.

Það er áhugavert að skoða þá uppöldu Blika sem hafa orðið atvinnumenn undanfarin ár. Alfreð Finnbogason, Jóhann Berg Guðmundsson, Elfar Freyr Helgason, Guðmundur Kristjánsson, Kristinn Steindórsson, Kristinn Jónsson, Steindór Freyr Þorsteinsson, Guðmann Þórisson, Arnór Sveinn Aðalsteinsson og Sverrir Ingi Ingason komu allir verulega við sögu í meistaraflokkum á Íslandi áður en þeir héldu erlendis. Af sjö leikmönnum Breiðabliks sem hafa farið út fyrir meistaraflokkinn hefur aðeins Gylfi Þór Sigurðsson fest sig í sessi sem fullorðinn atvinnumaður en óvíst er enn með amk. fimm leikmenn sem eru enn það ungir að ekki er útséð með framgöngu þeirra á næstu árum.

Real Madrid kaupir bestu leikmenn í heimi fyrir stórar upphæðir. En félagið rekur líka mjög afkastamikla akademíu sem hefur skilað fjöldanum öllum af toppleikmönnum. Spænski þjálfarinn sagði að Real Madrid sæktist ekki sérstaklega eftir ungum leikmönnum utan Madrid. „Okkar reynsla er að það að það hentar ungum leikmönnum best að þroska hæfileika sína nálægt fjölskyldu sinni og heimahögum hafi þeir þess kost.“ Sama hugarfar virðist ráðandi hjá Borussia Dortmund sem segjast ekki sækja unga leikmenn langt út fyrir sitt nærumhverfi. Það er allavegana áhugavert að velta fyrir sér spurningunni hvort ungur leikmaður brýnist betur af því að æfa og spila með jafnöldrum sínum erlendis eða af því að sanna sig fyrst í íslensku úrvalsdeildinni? Báðar leiðir virðast færar og undir leikmanninum komið að velja vel sína leið.

Að elska leikinn – Margrét Lára og Michael Jordan

Í gær hlustaði ég á Margréti Láru Viðarsdóttur halda mjög áhugavert erindi um feril sinn. Margrét hefur afrekað meira en aðrar íslenskar knattspyrnukonur og varð meðal annars Þýskalandsmeistari með Turbine Potsdam.

Margrét Lára varð þýskur meistari með Turbine Potsdam

Margrét Lára varð þýskur meistari með Turbine Potsdam

Margrét hefur glímt við erfið meiðsli sem hafa sett svip á feril hennar. Margt bendir hinsvegar til að hún komi tilbaka öflugri en í langan tíma eftir barnsburð í sumar. Hún lagði áherslu á að það væri að mörgu leiti erfitt að vera afrekskona í knattspyrnu. Hörð samkeppni, óvissa með laun og réttindi, meiðsli og fjarvistir frá fjölskyldu geta tekið á.

Áheyrendur fengu hins vegar að ég tel að heyra leyndarmálið á bakvið velgengni Margrétar. Hún segist elska leikinn og vitnaði í Michael Jordan sem náði því fram í fyrsta NBA samningnum sínum að hann mætti spila körfubolta hvar sem er og hvenær sem er. Jordan elskaði leikinn og það skipti hann engu máli hvort hann væri að spila aleinn, við einn eða fimm eða átta manns, í NBA eða í pick-up leikjum eða við vini sína. Hann naut þess bara alltaf spila vegna þess að hann elskaði leikinn. Og hann gætti þess að setja inn í fyrsta samninginn sinn að hann þyrfti ekki að líta á leikinn sem eingöngu vinnu.

Þegar Margrét Lára lýsti ferli sínum skein hið sama í gegn. Hún elskar leikinn. Og það er örugglega lykillinn af því að eiga farsælan feril, sama hvert hann leiðir mann.

 

Njótið þess

Mynd af visir.is

Mynd af visir.is

„Við erum að spila úrslitaleik strákar mínir. Njótið þess. Njótið þess.“

Þrátt fyrir að vera ekki handboltaunnandi og verandi með sterkar taugar til Hauka og leikmanna þeirra hreifst ég eins og margir aðrir með Eyjamönnum sem tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn í gærkvöldi.

Í þessum leik sem og í úrslitakeppninni buðu Eyjamenn upp á ýmislegt sem er til fyrirmyndar.

Stemningu
Bærinn og þjóðflokkurinn hreifst með liðinu og tók hlutverk sitt með trompi. Frammistaða baklandsins var til fyrirmyndar, enda sást vel á viðtölum við leikmenn eftir leik fyrir hvaða hughrifum þeir höfðu orðið. Eyjamenn búa vel að því að hafa fjölmarga tríbalíska þætti sem þeir geta sameinast um eins og þjóðhátíðarlögin. Enda hljóta Haukamenn að vera orðnir hundleiðir á „Þar sem hjartað slær“ á meðan það hlýtur að hljóma framyfir fyrstu helgina í ágúst í Eyjum.

Hugarfar
Leikmenn og þjálfarar spiluðu greinilega vel inná annað sameiginlegt minni Eyjamanna og sóttu innblástur í gosið. Þessir strákar gefast aldrei upp sögðu þjálfararnir klökkir. Íþróttamenn sem gefast aldrei upp eru enda líklegri til að ná árangri að lokum og móta sína eigin leið í lífinu. Þannig gátu nýliðar orðið Íslandsmeistarar þrátt fyrir að það hafði aldrei gerst áður.

Viðhorf
Þú ert þremur mörkum undir, skammt eftir af tímabilinu og tekur leikhlé. Skilaboð þjálfaranna sýndu fagmennsku fram í fingurgóma. „Við erum að spila úrslitaleik strákar. Njótið þess. Njótið þess.“ Ekkert berjast strákar berjast heldur samhengi hlutanna skellt framan í leikmennina sem sneru afstressaðir tilbaka út á gólf og sneru taflinu við.

Á meðan grunnurinn er í lagi sjá úrslitin um sig sjálf. Vel gert Eyjamenn. Meira að segja Baumruk eldri sem vantar tapgenið gat ekki annað en hrifist með.

Alfreð markahæstur í Hollandi – fór óhefðbundna leið

Alfreð Finnbogason hefur náð þeim frábæra árangri að verða markahæsti leikmaður hollensku úrvalsdeildarinnar. 

Hér má sjá hvaða leikmenn hafa borið sama titil undanfarin ár. 

Þar á meðal eru Luis Suarez, Klaas Jan Huntelaar, Ruud Van Nistelroy, Wilfried Bony, Dirk Kuyt. Alfreð er fyrsti norðurlandabúinn síðan Jari Litmanen prýddi grænar grundir Niðurlanda til að skora flest mörk í Hollandi.

Árangur Alfreðs er merkilegur í eftirfarandi ljósi. Hann fór ekki erlendis fyrr en hann hafði leikið þrjú ár í meistaraflokki Breiðabliks og þar áður nokkra leiki fyrir Augnablik. 

Það er ljóst að það þurfa ekki allir ungir knattspyrnumenn að flýta sér á samning erlendis til að láta drauminn rætast. Gæti skólun í íslensku úrvalsdeildinni hentað sumum betur en að spila með unglingaliðum í Evrópu? 

Image

Alfreð fór erlendis eftir að hafa unnið deild, bikar og gullskóinn

Lengi býr að fyrstu gerð

blatteravaxtaaefing copy

Sepp Blatter á ávaxtaæfingu hjá 8. flokki kvenna í Breiðablik

Um síðustu helgi hélt KSÍ ráðstefnu um fjölgun iðkenda í yngri flokkum kvenna. Þótt kvennalandsliðið hafi náð miklum árangri undanfarin ár hefur iðkendum ekki fjölgað og jafnvel fækkað á sumum stöðum.

Kynnt var áhugarvert leikskólaverkefni Fram og Pálmar Guðmundsson frá Grindavík sýndi fram á mikilvægi þess að fá áhugasama þjálfara til að vinna með ungum stúlkum. Þarna mátti heyra góðar sögur sem hafa skilað árangri, félögunum til sóma.

Sverrir Óskarsson kom fram fyrir hönd Breiðabliks og kynnti starf 8. flokks kvenna en 80-90 stúlkur á aldrinum 3-6 ára æfa knattspyrnu að staðaldri hjá Breiðablik. Sverrir hefur ásamt þjálfurum 8. flokks unnið frábært brautryðjendastarf fyrir þennan aldursflokk en áður en boðið var upp á sérstakar æfingar fyrir stelpur haustið 2012 voru ekki nema 10-15 á þessum aldri að æfa fótbolta.

Sverrir hefur lengi starfað í hópi frábærra barnaþjálfara hjá Breiðablik. Hann sýndi einnig þetta myndband sem hann tók saman fyrir þjálfararáðstefnu Bandaríska Þjálfarasambandsins.

Þegar Sverrir hafði lokið máli sínu tók ég við og benti á að innan Breiðabliks hefði orðið mikil hugarfarsbreyting undanfarinn áratug hvað varðar þjálfun og aðbúnað yngri flokka kvenna. Þrír af hverjum fjórum þjálfurum hjá Breiðablik hafa þjálfað bæði kynin undanfarin ár og sem yfirþjálfari finn ég ekki fyrir fordómum þjálfara gagnvart því að vinna með stúlkum frekar en strákum. Stjórn og unglingaráð eru jafnframt mjög jafnréttissinnuð og ekki eru greidd hærri laun fyrir að þjálfa stráka en stelpur. Félagið hefur að auki metnað fyrir því að hafa góða þjálfara á yngstu flokkunum sem og þeim eldri. Breiðablik hlaut jafnréttisviðurkenningu frá Kópavogsbæ á síðasta ári fyrir starf sitt í kvennaflokkum.

Áherslan á góða þjálfun í Breiðablik, eins og Grindavík hefur greinilega gert hefur skilað því að fjölgun í kvennaflokkum hefur verið ævintýri líkust. Árið 2009 voru 16 stúlkur í 3. flokki kvenna, 35 í 4. flokki kvenna, 40 í 5. flokki kvenna og 25 í 6. flokki kvenna. Sumarið 2014 verða 40 stúlkur í 3. flokki kvenna, 80 í 4. flokki kvenna, 80 í 5. flokki kvenna og 90 í 6. flokki kvenna.

Þetta er mikið fagnaðarefni. Við heyrum útundan okkur athugasemdir á borð við að Breiðablik leggi of mikla áherslu á kvennaknattspyrnu. Að félagið sé Pæjumótsklúbbur og svo framvegis. Þeir sem halda slíku fram gleyma því að á sama tíma hefur vegur karlaboltans vaxið heldur betur þannig að félagið sem var áður grænt og féll á haustin er nú ávallt listað í topp 4-5 þegar sérfræðingar spá fyrir um sumarið.

Þeir sem komu á leik FH og Breiðabliks í Kaplakrika í gærkvöldi og sátu með stuðningsmönnum Blika gátu séð troðfulla stúku. Þar á meðal var stór hluti ungra stúlkna sem gerðu sér ferð í Hafnarfjörð til að horfa á Finn Orra, Gunnleif og Árna Vill spila fótbolta. Þar mátti sjá núverandi iðkendur úr 7. flokki upp í 2. flokk, fyrrverandi iðkendur sem eru sjálfar hættar knattspyrnuiðkun og foreldra stúlkna sem fara með þeim á völlinn. Knattspyrnan sjálf hefur grætt.

Jafnrétti í knattspyrnu skilar á þennan hátt örugglega meiri tekjum í kassann til lengri tíma litið fyrir þá sem mæla árangur í peningum. En eins og rætt var um á ráðstefnu KSÍ er þetta einfaldlega spurning um hvernig samfélag félögin vilja skapa fyrir sitt nærumhverfi. Fundarmenn voru sammála um að fjölmiðlar mættu taka þetta til athugunar. Það hefur sýnt sig að þegar ráðnir eru íþróttafréttamenn sem hafa áhuga á kvennaknattspyrnu hefur vegur hennar vaxið hjá þeim miðlum.

Á síðasta aðalfundi KSÍ kom fram tillaga um að breyta keppnisfyrirkomulagi í 2. flokki kvenna. Flest félög eru í vanda við að manna lið á aldrinum 17-19 ára. Ég vil meina að það skipti engu máli hverju er breytt hjá þeim eldri á meðan félögin sinna ekki þeim yngstu. Ef ekki næst í 3 lið í 5. flokki sumarið 2013 hvernig á þá að manna 2. flokk sumarið 2018.

Lengi býr að fyrstu gerð. Þjálfarar 8. flokks kvenna Sverrir, Kristinn, Lóa, Ella Dís og Esther eru að vinna frábært starf fyrir Breiðablik og íslenska knattspyrnu.

 

Echte liebe – Heimsókn til Þýskalands

Æfing hjá yngri flokkum BVB

Æfing hjá yngri flokkum BVB

Í byrjun mars dvaldi ég um vikuskeið í Þýskalandi til að fylgjast með æfingum hjá Borussia Dortmund og Borussia Mönchengladbach. Ég hafði planað að heimsækja evrópsk lið til að sækja mér þekkingu og heimsækja toppklúbba og valið stóð milli Spánar og Þýskalands. Bókin Soccernomics hafði svo ákveðið úrslitavald yfir ákvörðuninn en þar er bent á að svæðið í kringum Ruhr-héraðið og Benelux-löndin sé miðpunktur evrópskrar knattspyrnu enda óvenjulega mikill fjöldi atvinnumannaliða og framboð á toppknattspyrnu á litlu landfræðilegu og félagslegu svæði. Höfundar bókarinnar vilja meina að ein ástæða fyrir velgengni þessara þjóða (fyrir utan kannski Lúxemborg) sé sú að þar sé stutt fyrir góðar hugmyndir og fagleg vinnubrögð að ferðast á milli manna. Svæðið sé þannig „heitur reitur“ hvað knattspyrnuþjálfun varðar.

BVB Dortmund

Með aðstoð góðra manna komst ég að hjá Dortmund og fékk þar að fylgjast með öllum æfingum aðalliðsins og yngri flokka félagsins í fjóra daga. Dortmund er stórlið á alla mælikvarða, spilaði síðasta vor í úrslitum Meistaradeildarinnar, hefur nýlega orðið þýskur meistari undir stjórn Jurgen Klopps og leikur áhugaverða knattspyrnu. Félagið á risastóran áhangendahóp, sigraði Meistaradeildina 1997 og fékk nýverið viðurkenningu fyrir að vera fyrsta félagið í Evrópu sem tók á móti milljónasta áhorfanda á vellinum sínum í vetur.

Aðstaða yngri flokka BVB

Aðstaða yngri flokka BVB

Ég leigði íbúð milli Signal-Iduna Park (Westfalenstadion) og miðbæjar Dortmund og það var snemma augljóst að knattspyrnufélagið skiptir gríðarlega miklu máli í samfélaginu. Alls staðar sjást ummerki þess að félagið snerti strengi borgarbúa á margvíslegan hátt. Út um alla borg má sjá Dortmund-fána, gula litinn og slagorð á borð við „Echte liebe“ eða sönn ást. Á leikdag breyttist borgin í eitt stórt fótboltapartýpleis þar sem fólk fjölmennti eins og maurar upp göturnar í áttina að leikvanginum. Stemningin fyrir utan og innan völlin var mjög skemmtileg og slær út öllu sem maður hefur til að mynda upplifað í mörgum ferðum til Englands. Segja má að þýsk félög fari með áhangendur sína sem fjölskyldu á meðan ensk félög fari með þá sem viðskiptavini.

Æfingasvæði BVB er í úthverfi Dortmund og þar var vel tekið á mót mér fyrsta daginn og útskýrt að ég mætti fylgjast með öllu en það hefði enginn tíma til að sinna mér enda liðið í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar og mikið um að vera. Það hentaði bara vel og ég var eins og fluga á vegg í sex til átta tíma á dag.

Aðalliðið æfir eins og týpískt atvinnumannalið. Löng upphitun með jafnvægisæfingum, sendingaræfingar, taktík og létt spil. Lítið niðurlag og séræfingar í lokin. Mér fannst þeir fullrólegir fyrir minn smekk, utan einnar taktískrar æfingar þar sem Klopp lét vel í sér heyra. Það var áhugavert að fylgjast með honum. Samband hans við leikmenn, starfsmenn og áhorfendur er til fyrirmyndar þar sem hann high-fivear fólk eins og honum sé borgað fyrir það og virðist týpan þannig að hann gefur óendanlega mikið af sér. Hann tók tíma til að segja mér í byrjun hvað væri áhugavert að sjá og hvað ekki en lengra náðu samskiptin ekki. Hann spurði til að mynda ekki út í úrslit í Lengjubikarnum þá helgina.

En Klopp heillaði mig að því leiti að hann virtist nálgast alla á mjög mannlegum nótum og á sama leveli. Þannig tók hann þátt í að reyna að rassa leikmenn af 30 m færi án þess að þeir vissu af því og leikmenn gátu sömuleiðis strítt honum án þess að hann færi á of háan hest gagnvart þeim. Hann virðist njóta ómældrar virðingar starfsfólks, fjölmiðlamanna sem fylgdust með og áhangenda. Þegar hann tjáði sig þá lét hann hins vegar í sér heyra og vegna þess að hann hefur virðingu fólks var á hann hlustað.

Signal-Iduna Park / Westfalenstadion á leikdegi

Signal-Iduna Park / Westfalenstadion á leikdegi

Dortmund tapaði leiknum sem ég sá í lok vikunnar, 1:2 á heimavelli gegn Mönchengladbach. Liðið er í 2. sæti Bundesligunnar langt á eftir ofurmennunum í FC Bayern og áherslan virtist komin á Meistaradeildina. Það virðist hafa haft áhrif að missa leikmenn á borð við Götze og Kagawa undanfarin ár og til að mynda þarf Nuri Sahin að spila á miðjunni sem lofar ekki góðu. Leikmenn á borð við Reus, Gundogan og Mkhitaryan hafa verið meiddir og Lewandowski er kominn hálfa leið til Munchen.

Aðalliðið hefur ákveðinn leikstíl sem smitast greinilega í unglingastarfið. Það virðist þó vera meira óbeint en ætlað og barna og unglingaþjálfarar félagsins sögðu mér að þeir væru með mikið frelsi í sinni nálgun. Greinlegt var að rauður þráður var í gegnum alla flokka, svipaðar áherslur í varnar og sóknarleik og aðalliðið er með.

Dortmund sækir leikmenn sína eftir skóla og kemur með þá á æfingar. Allar æfingar eru 90 mínútur og þar af 30 mínútur í jafnvægis og styrktarþjálfun. Hlutfall leikmanna á þjálfara er uþb. 16/1. Unglingaliðin eru með eigin æfingavelli og aðstöðu við hliðina á aðalliðinu.

Það var lærdómsríkt og skemmtilegt að fá sér svala með nokkrum þjálfurum eftir æfingu. Þjálfarar liðsins höfðu engan áhuga á íslenskum fótbolta en töluðu mikið um S-Ameríku. Þangað horfa þeir.

Borussia Mönchengladbach

Ég fékk óvenju góðan aðgang að Borussia Mönchengladbach í gegnum tengsl við þjálfara hjá félaginu. Ég fékk að sitja morgunverðarfund með öllum 25 atvinnuþjálfurum klúbbsins þar sem þeir fengu fræðslu um gildi lyftinga fyrir knattspyrnumenn. Það var fræðandi og áhugavert að heyra þeirra sjónarmið. Eftir fundinn var öllum þjálfurunum skipað í galla og inn í lyftingarsal þar sem fitness-þjálfarar félagsins fóru með þá í gegnum æfingar sem þeir eiga að leggja áherslu á.

Treyjur þeirra sem hafa komið upp úr unglingastarfi Borussia

Treyjur þeirra sem hafa komið upp úr unglingastarfi Borussia

Borussia er mjög stór og áhugaverður klúbbur sem var upp á sitt besta á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar þegar Allan Simonsen og Gunter Netzer komu þeim langt í Evrópukeppnum. Ólíkt Dortmund er öll aðstaða félagsins á einum stað, hjá aðalavellinum sem tekur um 50.000 manns. Á staðnum eru ógrynni knattspyrnuvalla, sprettbrautir, brekkubrautir, lyftingaaðstaða, veitingastaður, skrifstofur og sjúkraþjálfunarstöð. Eins og í Dortmund var greinilegt að félagið er stór partur af borgarlífinu í Mönchengladbach. Ólíkt Dortmund er Borussia með metnaðarfullt kvennastarf, þar sem áherslan er á unglingastarfið en félagið hefur meðvitað ákveðið að fjármagna aðalliðið ekki sem úrvalsdeildarfélag heldur einblína á ungviðið.

Borussia Park í Mönchengladbach

Borussia Park í Mönchengladbach

Heimsókn sem þessi er nærandi og bætandi, enda gott að stíga út fyrir þægindarammann og sjá hvað er verið að gera. Íslensk félög geta að flestu leiti ekki borið sig saman við þýsk úrvalsdeildarfélög en það sem er hægt að læra er hvernig er umleikis á toppnum, hver standardinn er, hverjar áherslurnar eru og hvernig skipulagið virkar. Það er líka gott að vera ekki mataður endalaust á upplýsingum heldur að maður fái að lykta af réttinum sjálfur og móta sér skoðanir. Að mínu mati hafa Þjóðverjar mikið rúm til að bæta sig meira. Það er ógnvekjandi hugsun, að þeir geti orðið ennþá betri en þeir eru og það segir manni að það er margt óunnið í íslenskri knattspyrnu. Fyrir okkur sem þar störfum er það skemmtileg tilhugsun.

NSCAA í Philadelphia 2014

Image

Fjórir þjálfarar frá Breiðablik ásamt Sigga Ragga frá KSÍ fóru á þjálfararáðstefnu bandaríska knattspyrnusambandsins í Philadelphia í janúar. Arnar Bill Gunnarsson, Sverrir Óskarsson og Guðmundur Brynjólfsson skiluðu inn skýrslu til KSÍ sem lýsir vel því sem fyrir augu bar. 

Hana má nálgast hér