Hæfileikamótun eða….

photo (22)

Skipulögð hæfileikamótun á vegum KSÍ hefur gengið brösulega undanfarin ár og lengi hangið á því hversu öflugir landshlutafulltrúar hafa verið. Þorlákur Árnason hefur rifið hana upp undanfarið árið af alkunnum myndugleik og við starfi hans tekur nú öflugur eftirmaður.

Samkvæmt meistaraverkefni Þórhalls Siggeirssonar, yfirþjálfara Stjörnunnar eru félögin sem hafa staðið sig einna best í hæfileikamótun öll á höfuðborgarsvæðinu.

Þegar núverandi árangur félaganna er skoðaður út frá matskerfinu, sýna niðurstöður að Breiðablik, KR og FH eru afkastamestu félögin í íslenskri knattspyrnu.

Þegar afburðaleikmenn 23 ára og yngri eru skoðaðir sérstaklega, kemur í ljós að Breiðablik, Fylkir og ÍA afkasta mestu út frá mælingum fyrir árið 2013.

– Þórhallur Siggeirsson, MSc. verkefni 2014

Því er áhugavert að velta fyrir sér áherslum KSÍ í hæfileikamótun. Einu tengsl Breiðabliks við landshlutafulltrúa um langt skeið voru að beðið var um útfyllt excel skjal þar sem félagið átti að nafngreina alla efnilegustu leikmenn sína á aldrinum 12 ára og eldri, stöður, kosti og galla. Þegar ég bað um að fá að vita hverjir hefðu aðgang að þessu skjali og í hvaða tilgangi það yrði notað var fátt um svör. Það var því aldrei sent og mun aldrei verða búið til í Breiðablik.

Eins og áður segir hefur Þorlákur fært hæfileikamótunina á hærra plan undanfarið árið, eins og sjá mátti á fyrirlestri hans í höfuðstöðvum KSÍ um daginn. Þorlákur er í reglulegu sambandi og ræðir opinskátt um það sem er gert vel og það sem mætti betur fara. Þó situr eitt veigamikið atriði eftir sem truflar varðandi áherslur og þunga KSÍ.

„70% þeirra sem tóku þátt árið 2014 koma af landsbyggðinni en einungis 30% úr Reykjavík og höfuðborgarsvæðinu.“

Glærur frá KSÍ

Ég upplifði það sem einn af skólastjórum Knattspyrnuskóla stúlkna á Laugarvatni sem var áður fyrsta snerting KSÍ við unga og efnilega leikmenn að áherslan væri ekki á afreksstarf heldur að hleypa að einum úr hverju einasta félagi á landinu og veit að Þorlákur hafði upplifað það sama í sömu stöðu áður. Þannig mætti ein frá Breiðablik, ein frá FH, ein frá Stjörnunni sem eru fjölmennustu félögin en þrjár frá Fjarðarbyggð og þrjár frá Snæfellsnesi en þar senda þrjú félög sameiginleg lið til leiks. Eitt skiptið spurðum við leikmann hvort margir væru að æfa í hennar heimabyggð og hún sagði að þær væru tvær og hin hefði ekki komist.  Vegna þess að knattspyrnan lét ekki almennilega vita af sér fyrr en á 15 ára aldri kom fyrir að hún missti hæfileikafólk í aðrar íþróttir sem byrjuðu fyrr með hæfileikamótun, t.d. í badminton, tennis og körfuknattleik. Vonandi fer hæfileikamótunin ekki sömu leið og Laugarvatn að vera að megninu til grasrótarstarf, byggðarstefna og kjördæmapot.

Þorlákur hafði beðið þjálfara um að senda inn athugasemdir eftir haustið og þetta hafði ég að segja.

„Þetta er góð leið til að finna hæfileikafólk en ég er ekki viss um að þetta sé heppilegasta leiðin til að móta hæfileika. Ég tel að næsta skref sé að KSÍ og félögin eigi samtal um það hvernig eigi að ná sem mestu út úr þeim sem sýna hæfileika á þessum aldri.“

KSÍ og Þorláki til hróss fannst mér slíkt skref tekið með því að fá til landsins Heinz Russheim frá FC Zurich til að ræða um einmitt þetta. Vonandi verður meira af slíku. Á fundinum í KSÍ var mikið rætt um að A landsliðið væri hápunktur hæfileikamótunar á Íslandi. Það er því skrýtið hversu litla áherslu KSÍ leggur á að vinna markvisst með félögum sem leggja mest til og leikmönnum þeirra. Gefið var í skyn að það yrði reynt að gera meira á höfuðborgarsvæðinu á næsta ári. Það verður spennandi og gaman að fá að taka þátt í því.

90-10

axela Greta_salome

„Mig óraði aldrei fyrir því að ég ætti eftir að lenda í svona ævingýri. Ég hef reynt að seilast eftir draumum mínum en það hefur líka kostað heilmikla vinnu. Hlutirnir gerast ekki af sjálfu sér, þessi árangur er 90% vinna og 10% hæfileikar. Það fylgir því að vera tónlistarkona að vera tilbúin til að fórna flestu öðru. Ég vissi fyrir löngu að ég væri reiðubúin til þess.“

– Gréta Salóme Stefánsdóttir í Fréttatímanum 5. – 7. desember.

„Þetta er alvöru vinna en það má segja að áhuginn sé 90% af árangrinum og hæfileikar 10%. Ég var ekki alltaf bestu í fótbolta þegar ég spilaði með Aftureldingu en ég hef aftur á móti alltaf lagt mig fram 100% og verið duglegur. Það sem skiptir mestu máli í atvinnumennsku er að halda úti og hafa viljastyrkinn til að vera sterkur í hausnum.“

– Axel Óskar Andrésson í Fréttatímanum 5. – 7. desember.

Íslensk knattspyrna í hnotskurn

IMG_7303

Þetta var lærdómur ársins fyrir mig. Ég ætla bara að leyfa þessu að standa hérna.

Hvergi í heiminum hafa jafn mörg börn og unglingar jafn mörg tækifæri jafn lengi til að stunda knattspyrnu jafn oft í viku með jafn menntuðum þjálfurum við jafn góðar aðstæður fyrir jafn hagstæð æfingagjöld. 

Land tækifæranna

Aðeins tuttugu tólf ára drengir í Dortmund hafa aðgang að Footbonaut.

Aðeins tuttugu tólf ára drengir í Dortmund hafa aðgang að Footbonaut.

Ferð Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands til Mainz og Dortmund í október var vel heppnuð og margt áhugavert bar fyrir augu og eyru þátttakenda.

Eitt af því allra áhugaverðasta sem íslenskir þjálfarar kynnast á erlendri grundu er það hversu skörp skil eru milli elítuknattspyrnu og áhugaknattspyrnu. Í flestum Evrópulöndum velja toppliðin 20-25 leikmenn í hverjum aldursflokki og sinna þeim eingöngu. Þannig verður úr gríðarleg sía sem kastar út þeim sem standa sig ekki og hleypir fáum að. Þeir sem komast ekki í elítuliðin æfa þá með hverfaliðum sem sía oft sömuleiðis úr.

Líklega er vandfundinn sá staður í veröldinni þar sem ungir knattspyrnumenn og gamlir hafa jafn mörg tækifæri á að spila fótbolta eins og Ísland. Hér eru A lið, B lið, C lið, úrvalsdeild, 1. deild, 2. deild, 3. deild, 4. deild, oldboys og utandeildir. Flest félög taka við öllum sem vilja æfa, leggja sig fram um að mennta þjálfara sína og æfingagjöld eru mjög hófleg í samanburði við það sem þekkist erlendis. Þannig geta drengir og stúlkur („Warum Frauen?“ er spurning sem heyrist oft í Þýskalandi) lang oftast fundið sér lið við hæfi, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu.

Þetta er mikill kostur við íslenska knattspyrnu. Það er land tækifæranna hvað knattspyrnu varðar.

Menning og íþróttir – betri saman en sundruð

FullSizeRender

Æfing á laugardagsmorgni. Sama lagið í þrítugasta sinn í vikunni.

Unnusta mín er söngkona að atvinnu. Við lítum á okkur sem hin íslensku Victoriu Beckham og Roy Hodgson.

Nú líður örugglega að þeim tíma árs þar sem umræður um fjárlagafrumvarpið fara að snúast um hversu miklu ríkið sólundar í menningu og listir. Vinsæl skotmörk eru til að mynda listamannalaun og sinfónían. Einhverjir íþróttaforkólfar munu eyða orku í samanburð á því sem er útdeilt til íþróttahreyfingarinnar og vafalaust sleppa því að telja sér til tekna það sem sveitarfélög eyða í uppbyggingu á íþróttamannvirkjum og frístundastyrki. Einhverjir menningarforkólfar munu stökkva til að verja sitt og taka til samanburð sem sleppir sömuleiðis kostnað við mannvirki. Hvorug stéttin þorir svo að benda á neðanjarðarhagkerfi hinnar. Svo líður haustið og ekkert var áunnið nema pirringur íþróttaforkólfa út í menningarforkólfa og öfugt. Þegar upp er staðið í stóru myndinni er þetta svo eins og maður á framkvæmdastjóralaunum tími ekki að bjóða konunni sinni út að borða annan hvern mánuð en keyri án umhugsunar um á stærsta bensínsvelg sem völ er á.

Sjálfur sé ég gríðarlega eftir vaxtakostnaði ríkissjóðs en ekki eftir einni einustu krónu til menningarmála né íþróttamála. Ísland á landslið sem er í alvöru að berjast við Holland, Tékkland og Tyrkland um að komast á stórmót í fótbolta, körfuknattleiksliðið er komið alla leið í úrslit og íslenskur handbolti er á heimsmælikvarða svo ekki sé minnst á hópfimleika, Anitu Hinriksdóttur og Gunnar Nelson. Á meðan er íslenska sinfóníuhljómsveitin að bjóða upp á hámenningu sem er erfitt að búast við í Norður Atlantshafi, Björk, Sigur Rós, Gus Gus og Of Monsters and Men hafa náð heimsathygli. Baltasar starfar með Denzel, Ólafur Darri með Woody Harrelson og Íþróttaálfurinn kennir börnum í Mexíkó að hreyfa sig. Andri Snær, Arnaldur, Hugleikur og Yrsa selja bækur víða um veröld. Á hverjum degi á litlu eyjunni okkar er hægt að verða vitni að metnaðarfullum íþrótta- eða listviðburði. Ég er sannfærður um að árangur körfuknattleiksmannana okkar blási tónlistarmönnum okkar byr í brjóst eins og árangur leiklistargeirans ýti upp metnaði ungra knattspyrnumanna og fimleikakvenna, þó ekki endilega þannig að þau geri sér grein fyrir því.

Ég dáist að þrautseigju og atorku tónlistarkonunnar á heimilinu. Sama hversu lítilvægt verkefnið er þá æfir hún sig ávallt eins og hún sé að fara að stíga á stokk í Hörpu. Þótt ég geti orðið hundleiður á að sama lagið hljómi endalaust í litla hreiðrinu okkar er hún góð fyrirmynd fyrir ungt knattspyrnufólk sem þarf að temja sér að bera virðingu fyrir öllum verkefnum, reyna ávallt sitt besta og endurtaka tækni og framkvæmd eins oft og þarf til að ná henni rétt. Þar er tónlistarfólkið framar sem stendur.

Ég held á sama hátt að aðferðir nútíma knattspyrnuþjálfara gætu átt vel við það sem ég upplifi sem staðnaða tónlistarkennslu. Maður heyrir oftar „svona hefur þetta alltaf verið gert og á að gera“ í tónlistarheiminum heldur en í knattspyrnunni þar sem er gríðarleg gerjun um þessar mundir. En menn eru að mínu viti duglegir að læra hver af öðrum. Þegar ég velti fyrir mér þjálfunaraðferðum í knattspyrnu horfi ég oft úr fjarska til Gerplu og körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar og jafnvel til söngfuglsins í stofunni heima.

Það góða við íslenska menningu og íþróttir er að þær eru galopnar til og frá útlöndum. Efnilegir íslendingar á þessum sviðum demba sér óhræddir út í samkeppni við aðrar þjóðir og brýnast af þeirri baráttu. Í samanburði við margt sem íslensk sveitarfélög og ríkið leggja ómældar fjárhæðir í að stýra, loka og vernda eru menningin og íþróttirnar að leggja sitt af mörkum til að gera Ísland spennandi og áhugavert. Þær þurfa ekki endilega að byrja saman, en geta hið minnsta verið góðir vinir. Við fáum hverja krónu tilbaka og langt umfram.

Tvö dæmi um skemmtilegan íslenskan tónlistarflutning

Að flýta sér hægt í atvinnumennsku

Í sumar kom góður gestur í heimsókn til Breiðabliks, barna og unglingaþjálfari frá Real Madrid. Hann gaf ungum og efnilegum leikmanni sem var að velta fyrir sér atvinnumennsku áhugavert ráð, „Af hverju viltu fara til þessa liðs? Liðið sem þú ert í er að ala upp og selja leikmenn til liða í Evrópu og Skandinavíu. En ekki liðið úti“.

Að verða atvinnumaður og hvað þá A landsliðsmaður er flókið ferli og einstaklingsbundið. Í síðasta A landsleik voru framherjar íslenska liðsins Kolbeinn Sigþórsson sem fór utan til AZ Alkmaar sautján ára gamall með sex meistaraflokksleiki með HK á bakinu, Jón Daði Böðvarsson sem fór tvítugur til Viking Stavanger eftir 80 meistaraflokksleiki með Selfoss og Viðar Örn Kjartansson sem var seldur til Valerenga 23 ára gamall eftir að hafa leikið 139 meistaraflokksleiki með Selfoss, ÍBV og Fylki.

Það er áhugavert að skoða þá uppöldu Blika sem hafa orðið atvinnumenn undanfarin ár. Alfreð Finnbogason, Jóhann Berg Guðmundsson, Elfar Freyr Helgason, Guðmundur Kristjánsson, Kristinn Steindórsson, Kristinn Jónsson, Steindór Freyr Þorsteinsson, Guðmann Þórisson, Arnór Sveinn Aðalsteinsson og Sverrir Ingi Ingason komu allir verulega við sögu í meistaraflokkum á Íslandi áður en þeir héldu erlendis. Af sjö leikmönnum Breiðabliks sem hafa farið út fyrir meistaraflokkinn hefur aðeins Gylfi Þór Sigurðsson fest sig í sessi sem fullorðinn atvinnumaður en óvíst er enn með amk. fimm leikmenn sem eru enn það ungir að ekki er útséð með framgöngu þeirra á næstu árum.

Real Madrid kaupir bestu leikmenn í heimi fyrir stórar upphæðir. En félagið rekur líka mjög afkastamikla akademíu sem hefur skilað fjöldanum öllum af toppleikmönnum. Spænski þjálfarinn sagði að Real Madrid sæktist ekki sérstaklega eftir ungum leikmönnum utan Madrid. „Okkar reynsla er að það að það hentar ungum leikmönnum best að þroska hæfileika sína nálægt fjölskyldu sinni og heimahögum hafi þeir þess kost.“ Sama hugarfar virðist ráðandi hjá Borussia Dortmund sem segjast ekki sækja unga leikmenn langt út fyrir sitt nærumhverfi. Það er allavegana áhugavert að velta fyrir sér spurningunni hvort ungur leikmaður brýnist betur af því að æfa og spila með jafnöldrum sínum erlendis eða af því að sanna sig fyrst í íslensku úrvalsdeildinni? Báðar leiðir virðast færar og undir leikmanninum komið að velja vel sína leið.

Að elska leikinn – Margrét Lára og Michael Jordan

Í gær hlustaði ég á Margréti Láru Viðarsdóttur halda mjög áhugavert erindi um feril sinn. Margrét hefur afrekað meira en aðrar íslenskar knattspyrnukonur og varð meðal annars Þýskalandsmeistari með Turbine Potsdam.

Margrét Lára varð þýskur meistari með Turbine Potsdam

Margrét Lára varð þýskur meistari með Turbine Potsdam

Margrét hefur glímt við erfið meiðsli sem hafa sett svip á feril hennar. Margt bendir hinsvegar til að hún komi tilbaka öflugri en í langan tíma eftir barnsburð í sumar. Hún lagði áherslu á að það væri að mörgu leiti erfitt að vera afrekskona í knattspyrnu. Hörð samkeppni, óvissa með laun og réttindi, meiðsli og fjarvistir frá fjölskyldu geta tekið á.

Áheyrendur fengu hins vegar að ég tel að heyra leyndarmálið á bakvið velgengni Margrétar. Hún segist elska leikinn og vitnaði í Michael Jordan sem náði því fram í fyrsta NBA samningnum sínum að hann mætti spila körfubolta hvar sem er og hvenær sem er. Jordan elskaði leikinn og það skipti hann engu máli hvort hann væri að spila aleinn, við einn eða fimm eða átta manns, í NBA eða í pick-up leikjum eða við vini sína. Hann naut þess bara alltaf spila vegna þess að hann elskaði leikinn. Og hann gætti þess að setja inn í fyrsta samninginn sinn að hann þyrfti ekki að líta á leikinn sem eingöngu vinnu.

Þegar Margrét Lára lýsti ferli sínum skein hið sama í gegn. Hún elskar leikinn. Og það er örugglega lykillinn af því að eiga farsælan feril, sama hvert hann leiðir mann.