Hæfileikamótun eða….

photo (22)

Skipulögð hæfileikamótun á vegum KSÍ hefur gengið brösulega undanfarin ár og lengi hangið á því hversu öflugir landshlutafulltrúar hafa verið. Þorlákur Árnason hefur rifið hana upp undanfarið árið af alkunnum myndugleik og við starfi hans tekur nú öflugur eftirmaður.

Samkvæmt meistaraverkefni Þórhalls Siggeirssonar, yfirþjálfara Stjörnunnar eru félögin sem hafa staðið sig einna best í hæfileikamótun öll á höfuðborgarsvæðinu.

Þegar núverandi árangur félaganna er skoðaður út frá matskerfinu, sýna niðurstöður að Breiðablik, KR og FH eru afkastamestu félögin í íslenskri knattspyrnu.

Þegar afburðaleikmenn 23 ára og yngri eru skoðaðir sérstaklega, kemur í ljós að Breiðablik, Fylkir og ÍA afkasta mestu út frá mælingum fyrir árið 2013.

– Þórhallur Siggeirsson, MSc. verkefni 2014

Því er áhugavert að velta fyrir sér áherslum KSÍ í hæfileikamótun. Einu tengsl Breiðabliks við landshlutafulltrúa um langt skeið voru að beðið var um útfyllt excel skjal þar sem félagið átti að nafngreina alla efnilegustu leikmenn sína á aldrinum 12 ára og eldri, stöður, kosti og galla. Þegar ég bað um að fá að vita hverjir hefðu aðgang að þessu skjali og í hvaða tilgangi það yrði notað var fátt um svör. Það var því aldrei sent og mun aldrei verða búið til í Breiðablik.

Eins og áður segir hefur Þorlákur fært hæfileikamótunina á hærra plan undanfarið árið, eins og sjá mátti á fyrirlestri hans í höfuðstöðvum KSÍ um daginn. Þorlákur er í reglulegu sambandi og ræðir opinskátt um það sem er gert vel og það sem mætti betur fara. Þó situr eitt veigamikið atriði eftir sem truflar varðandi áherslur og þunga KSÍ.

„70% þeirra sem tóku þátt árið 2014 koma af landsbyggðinni en einungis 30% úr Reykjavík og höfuðborgarsvæðinu.“

Glærur frá KSÍ

Ég upplifði það sem einn af skólastjórum Knattspyrnuskóla stúlkna á Laugarvatni sem var áður fyrsta snerting KSÍ við unga og efnilega leikmenn að áherslan væri ekki á afreksstarf heldur að hleypa að einum úr hverju einasta félagi á landinu og veit að Þorlákur hafði upplifað það sama í sömu stöðu áður. Þannig mætti ein frá Breiðablik, ein frá FH, ein frá Stjörnunni sem eru fjölmennustu félögin en þrjár frá Fjarðarbyggð og þrjár frá Snæfellsnesi en þar senda þrjú félög sameiginleg lið til leiks. Eitt skiptið spurðum við leikmann hvort margir væru að æfa í hennar heimabyggð og hún sagði að þær væru tvær og hin hefði ekki komist.  Vegna þess að knattspyrnan lét ekki almennilega vita af sér fyrr en á 15 ára aldri kom fyrir að hún missti hæfileikafólk í aðrar íþróttir sem byrjuðu fyrr með hæfileikamótun, t.d. í badminton, tennis og körfuknattleik. Vonandi fer hæfileikamótunin ekki sömu leið og Laugarvatn að vera að megninu til grasrótarstarf, byggðarstefna og kjördæmapot.

Þorlákur hafði beðið þjálfara um að senda inn athugasemdir eftir haustið og þetta hafði ég að segja.

„Þetta er góð leið til að finna hæfileikafólk en ég er ekki viss um að þetta sé heppilegasta leiðin til að móta hæfileika. Ég tel að næsta skref sé að KSÍ og félögin eigi samtal um það hvernig eigi að ná sem mestu út úr þeim sem sýna hæfileika á þessum aldri.“

KSÍ og Þorláki til hróss fannst mér slíkt skref tekið með því að fá til landsins Heinz Russheim frá FC Zurich til að ræða um einmitt þetta. Vonandi verður meira af slíku. Á fundinum í KSÍ var mikið rætt um að A landsliðið væri hápunktur hæfileikamótunar á Íslandi. Það er því skrýtið hversu litla áherslu KSÍ leggur á að vinna markvisst með félögum sem leggja mest til og leikmönnum þeirra. Gefið var í skyn að það yrði reynt að gera meira á höfuðborgarsvæðinu á næsta ári. Það verður spennandi og gaman að fá að taka þátt í því.

90-10

axela Greta_salome

„Mig óraði aldrei fyrir því að ég ætti eftir að lenda í svona ævingýri. Ég hef reynt að seilast eftir draumum mínum en það hefur líka kostað heilmikla vinnu. Hlutirnir gerast ekki af sjálfu sér, þessi árangur er 90% vinna og 10% hæfileikar. Það fylgir því að vera tónlistarkona að vera tilbúin til að fórna flestu öðru. Ég vissi fyrir löngu að ég væri reiðubúin til þess.“

– Gréta Salóme Stefánsdóttir í Fréttatímanum 5. – 7. desember.

„Þetta er alvöru vinna en það má segja að áhuginn sé 90% af árangrinum og hæfileikar 10%. Ég var ekki alltaf bestu í fótbolta þegar ég spilaði með Aftureldingu en ég hef aftur á móti alltaf lagt mig fram 100% og verið duglegur. Það sem skiptir mestu máli í atvinnumennsku er að halda úti og hafa viljastyrkinn til að vera sterkur í hausnum.“

– Axel Óskar Andrésson í Fréttatímanum 5. – 7. desember.