Land tækifæranna

Aðeins tuttugu tólf ára drengir í Dortmund hafa aðgang að Footbonaut.

Aðeins tuttugu tólf ára drengir í Dortmund hafa aðgang að Footbonaut.

Ferð Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands til Mainz og Dortmund í október var vel heppnuð og margt áhugavert bar fyrir augu og eyru þátttakenda.

Eitt af því allra áhugaverðasta sem íslenskir þjálfarar kynnast á erlendri grundu er það hversu skörp skil eru milli elítuknattspyrnu og áhugaknattspyrnu. Í flestum Evrópulöndum velja toppliðin 20-25 leikmenn í hverjum aldursflokki og sinna þeim eingöngu. Þannig verður úr gríðarleg sía sem kastar út þeim sem standa sig ekki og hleypir fáum að. Þeir sem komast ekki í elítuliðin æfa þá með hverfaliðum sem sía oft sömuleiðis úr.

Líklega er vandfundinn sá staður í veröldinni þar sem ungir knattspyrnumenn og gamlir hafa jafn mörg tækifæri á að spila fótbolta eins og Ísland. Hér eru A lið, B lið, C lið, úrvalsdeild, 1. deild, 2. deild, 3. deild, 4. deild, oldboys og utandeildir. Flest félög taka við öllum sem vilja æfa, leggja sig fram um að mennta þjálfara sína og æfingagjöld eru mjög hófleg í samanburði við það sem þekkist erlendis. Þannig geta drengir og stúlkur („Warum Frauen?“ er spurning sem heyrist oft í Þýskalandi) lang oftast fundið sér lið við hæfi, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu.

Þetta er mikill kostur við íslenska knattspyrnu. Það er land tækifæranna hvað knattspyrnu varðar.

Menning og íþróttir – betri saman en sundruð

FullSizeRender

Æfing á laugardagsmorgni. Sama lagið í þrítugasta sinn í vikunni.

Unnusta mín er söngkona að atvinnu. Við lítum á okkur sem hin íslensku Victoriu Beckham og Roy Hodgson.

Nú líður örugglega að þeim tíma árs þar sem umræður um fjárlagafrumvarpið fara að snúast um hversu miklu ríkið sólundar í menningu og listir. Vinsæl skotmörk eru til að mynda listamannalaun og sinfónían. Einhverjir íþróttaforkólfar munu eyða orku í samanburð á því sem er útdeilt til íþróttahreyfingarinnar og vafalaust sleppa því að telja sér til tekna það sem sveitarfélög eyða í uppbyggingu á íþróttamannvirkjum og frístundastyrki. Einhverjir menningarforkólfar munu stökkva til að verja sitt og taka til samanburð sem sleppir sömuleiðis kostnað við mannvirki. Hvorug stéttin þorir svo að benda á neðanjarðarhagkerfi hinnar. Svo líður haustið og ekkert var áunnið nema pirringur íþróttaforkólfa út í menningarforkólfa og öfugt. Þegar upp er staðið í stóru myndinni er þetta svo eins og maður á framkvæmdastjóralaunum tími ekki að bjóða konunni sinni út að borða annan hvern mánuð en keyri án umhugsunar um á stærsta bensínsvelg sem völ er á.

Sjálfur sé ég gríðarlega eftir vaxtakostnaði ríkissjóðs en ekki eftir einni einustu krónu til menningarmála né íþróttamála. Ísland á landslið sem er í alvöru að berjast við Holland, Tékkland og Tyrkland um að komast á stórmót í fótbolta, körfuknattleiksliðið er komið alla leið í úrslit og íslenskur handbolti er á heimsmælikvarða svo ekki sé minnst á hópfimleika, Anitu Hinriksdóttur og Gunnar Nelson. Á meðan er íslenska sinfóníuhljómsveitin að bjóða upp á hámenningu sem er erfitt að búast við í Norður Atlantshafi, Björk, Sigur Rós, Gus Gus og Of Monsters and Men hafa náð heimsathygli. Baltasar starfar með Denzel, Ólafur Darri með Woody Harrelson og Íþróttaálfurinn kennir börnum í Mexíkó að hreyfa sig. Andri Snær, Arnaldur, Hugleikur og Yrsa selja bækur víða um veröld. Á hverjum degi á litlu eyjunni okkar er hægt að verða vitni að metnaðarfullum íþrótta- eða listviðburði. Ég er sannfærður um að árangur körfuknattleiksmannana okkar blási tónlistarmönnum okkar byr í brjóst eins og árangur leiklistargeirans ýti upp metnaði ungra knattspyrnumanna og fimleikakvenna, þó ekki endilega þannig að þau geri sér grein fyrir því.

Ég dáist að þrautseigju og atorku tónlistarkonunnar á heimilinu. Sama hversu lítilvægt verkefnið er þá æfir hún sig ávallt eins og hún sé að fara að stíga á stokk í Hörpu. Þótt ég geti orðið hundleiður á að sama lagið hljómi endalaust í litla hreiðrinu okkar er hún góð fyrirmynd fyrir ungt knattspyrnufólk sem þarf að temja sér að bera virðingu fyrir öllum verkefnum, reyna ávallt sitt besta og endurtaka tækni og framkvæmd eins oft og þarf til að ná henni rétt. Þar er tónlistarfólkið framar sem stendur.

Ég held á sama hátt að aðferðir nútíma knattspyrnuþjálfara gætu átt vel við það sem ég upplifi sem staðnaða tónlistarkennslu. Maður heyrir oftar „svona hefur þetta alltaf verið gert og á að gera“ í tónlistarheiminum heldur en í knattspyrnunni þar sem er gríðarleg gerjun um þessar mundir. En menn eru að mínu viti duglegir að læra hver af öðrum. Þegar ég velti fyrir mér þjálfunaraðferðum í knattspyrnu horfi ég oft úr fjarska til Gerplu og körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar og jafnvel til söngfuglsins í stofunni heima.

Það góða við íslenska menningu og íþróttir er að þær eru galopnar til og frá útlöndum. Efnilegir íslendingar á þessum sviðum demba sér óhræddir út í samkeppni við aðrar þjóðir og brýnast af þeirri baráttu. Í samanburði við margt sem íslensk sveitarfélög og ríkið leggja ómældar fjárhæðir í að stýra, loka og vernda eru menningin og íþróttirnar að leggja sitt af mörkum til að gera Ísland spennandi og áhugavert. Þær þurfa ekki endilega að byrja saman, en geta hið minnsta verið góðir vinir. Við fáum hverja krónu tilbaka og langt umfram.

Tvö dæmi um skemmtilegan íslenskan tónlistarflutning