Að flýta sér hægt í atvinnumennsku

Í sumar kom góður gestur í heimsókn til Breiðabliks, barna og unglingaþjálfari frá Real Madrid. Hann gaf ungum og efnilegum leikmanni sem var að velta fyrir sér atvinnumennsku áhugavert ráð, „Af hverju viltu fara til þessa liðs? Liðið sem þú ert í er að ala upp og selja leikmenn til liða í Evrópu og Skandinavíu. En ekki liðið úti“.

Að verða atvinnumaður og hvað þá A landsliðsmaður er flókið ferli og einstaklingsbundið. Í síðasta A landsleik voru framherjar íslenska liðsins Kolbeinn Sigþórsson sem fór utan til AZ Alkmaar sautján ára gamall með sex meistaraflokksleiki með HK á bakinu, Jón Daði Böðvarsson sem fór tvítugur til Viking Stavanger eftir 80 meistaraflokksleiki með Selfoss og Viðar Örn Kjartansson sem var seldur til Valerenga 23 ára gamall eftir að hafa leikið 139 meistaraflokksleiki með Selfoss, ÍBV og Fylki.

Það er áhugavert að skoða þá uppöldu Blika sem hafa orðið atvinnumenn undanfarin ár. Alfreð Finnbogason, Jóhann Berg Guðmundsson, Elfar Freyr Helgason, Guðmundur Kristjánsson, Kristinn Steindórsson, Kristinn Jónsson, Steindór Freyr Þorsteinsson, Guðmann Þórisson, Arnór Sveinn Aðalsteinsson og Sverrir Ingi Ingason komu allir verulega við sögu í meistaraflokkum á Íslandi áður en þeir héldu erlendis. Af sjö leikmönnum Breiðabliks sem hafa farið út fyrir meistaraflokkinn hefur aðeins Gylfi Þór Sigurðsson fest sig í sessi sem fullorðinn atvinnumaður en óvíst er enn með amk. fimm leikmenn sem eru enn það ungir að ekki er útséð með framgöngu þeirra á næstu árum.

Real Madrid kaupir bestu leikmenn í heimi fyrir stórar upphæðir. En félagið rekur líka mjög afkastamikla akademíu sem hefur skilað fjöldanum öllum af toppleikmönnum. Spænski þjálfarinn sagði að Real Madrid sæktist ekki sérstaklega eftir ungum leikmönnum utan Madrid. „Okkar reynsla er að það að það hentar ungum leikmönnum best að þroska hæfileika sína nálægt fjölskyldu sinni og heimahögum hafi þeir þess kost.“ Sama hugarfar virðist ráðandi hjá Borussia Dortmund sem segjast ekki sækja unga leikmenn langt út fyrir sitt nærumhverfi. Það er allavegana áhugavert að velta fyrir sér spurningunni hvort ungur leikmaður brýnist betur af því að æfa og spila með jafnöldrum sínum erlendis eða af því að sanna sig fyrst í íslensku úrvalsdeildinni? Báðar leiðir virðast færar og undir leikmanninum komið að velja vel sína leið.