Að elska leikinn – Margrét Lára og Michael Jordan

Í gær hlustaði ég á Margréti Láru Viðarsdóttur halda mjög áhugavert erindi um feril sinn. Margrét hefur afrekað meira en aðrar íslenskar knattspyrnukonur og varð meðal annars Þýskalandsmeistari með Turbine Potsdam.

Margrét Lára varð þýskur meistari með Turbine Potsdam

Margrét Lára varð þýskur meistari með Turbine Potsdam

Margrét hefur glímt við erfið meiðsli sem hafa sett svip á feril hennar. Margt bendir hinsvegar til að hún komi tilbaka öflugri en í langan tíma eftir barnsburð í sumar. Hún lagði áherslu á að það væri að mörgu leiti erfitt að vera afrekskona í knattspyrnu. Hörð samkeppni, óvissa með laun og réttindi, meiðsli og fjarvistir frá fjölskyldu geta tekið á.

Áheyrendur fengu hins vegar að ég tel að heyra leyndarmálið á bakvið velgengni Margrétar. Hún segist elska leikinn og vitnaði í Michael Jordan sem náði því fram í fyrsta NBA samningnum sínum að hann mætti spila körfubolta hvar sem er og hvenær sem er. Jordan elskaði leikinn og það skipti hann engu máli hvort hann væri að spila aleinn, við einn eða fimm eða átta manns, í NBA eða í pick-up leikjum eða við vini sína. Hann naut þess bara alltaf spila vegna þess að hann elskaði leikinn. Og hann gætti þess að setja inn í fyrsta samninginn sinn að hann þyrfti ekki að líta á leikinn sem eingöngu vinnu.

Þegar Margrét Lára lýsti ferli sínum skein hið sama í gegn. Hún elskar leikinn. Og það er örugglega lykillinn af því að eiga farsælan feril, sama hvert hann leiðir mann.

 

Njótið þess

Mynd af visir.is

Mynd af visir.is

„Við erum að spila úrslitaleik strákar mínir. Njótið þess. Njótið þess.“

Þrátt fyrir að vera ekki handboltaunnandi og verandi með sterkar taugar til Hauka og leikmanna þeirra hreifst ég eins og margir aðrir með Eyjamönnum sem tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn í gærkvöldi.

Í þessum leik sem og í úrslitakeppninni buðu Eyjamenn upp á ýmislegt sem er til fyrirmyndar.

Stemningu
Bærinn og þjóðflokkurinn hreifst með liðinu og tók hlutverk sitt með trompi. Frammistaða baklandsins var til fyrirmyndar, enda sást vel á viðtölum við leikmenn eftir leik fyrir hvaða hughrifum þeir höfðu orðið. Eyjamenn búa vel að því að hafa fjölmarga tríbalíska þætti sem þeir geta sameinast um eins og þjóðhátíðarlögin. Enda hljóta Haukamenn að vera orðnir hundleiðir á „Þar sem hjartað slær“ á meðan það hlýtur að hljóma framyfir fyrstu helgina í ágúst í Eyjum.

Hugarfar
Leikmenn og þjálfarar spiluðu greinilega vel inná annað sameiginlegt minni Eyjamanna og sóttu innblástur í gosið. Þessir strákar gefast aldrei upp sögðu þjálfararnir klökkir. Íþróttamenn sem gefast aldrei upp eru enda líklegri til að ná árangri að lokum og móta sína eigin leið í lífinu. Þannig gátu nýliðar orðið Íslandsmeistarar þrátt fyrir að það hafði aldrei gerst áður.

Viðhorf
Þú ert þremur mörkum undir, skammt eftir af tímabilinu og tekur leikhlé. Skilaboð þjálfaranna sýndu fagmennsku fram í fingurgóma. „Við erum að spila úrslitaleik strákar. Njótið þess. Njótið þess.“ Ekkert berjast strákar berjast heldur samhengi hlutanna skellt framan í leikmennina sem sneru afstressaðir tilbaka út á gólf og sneru taflinu við.

Á meðan grunnurinn er í lagi sjá úrslitin um sig sjálf. Vel gert Eyjamenn. Meira að segja Baumruk eldri sem vantar tapgenið gat ekki annað en hrifist með.

Alfreð markahæstur í Hollandi – fór óhefðbundna leið

Alfreð Finnbogason hefur náð þeim frábæra árangri að verða markahæsti leikmaður hollensku úrvalsdeildarinnar. 

Hér má sjá hvaða leikmenn hafa borið sama titil undanfarin ár. 

Þar á meðal eru Luis Suarez, Klaas Jan Huntelaar, Ruud Van Nistelroy, Wilfried Bony, Dirk Kuyt. Alfreð er fyrsti norðurlandabúinn síðan Jari Litmanen prýddi grænar grundir Niðurlanda til að skora flest mörk í Hollandi.

Árangur Alfreðs er merkilegur í eftirfarandi ljósi. Hann fór ekki erlendis fyrr en hann hafði leikið þrjú ár í meistaraflokki Breiðabliks og þar áður nokkra leiki fyrir Augnablik. 

Það er ljóst að það þurfa ekki allir ungir knattspyrnumenn að flýta sér á samning erlendis til að láta drauminn rætast. Gæti skólun í íslensku úrvalsdeildinni hentað sumum betur en að spila með unglingaliðum í Evrópu? 

Image

Alfreð fór erlendis eftir að hafa unnið deild, bikar og gullskóinn

Lengi býr að fyrstu gerð

blatteravaxtaaefing copy

Sepp Blatter á ávaxtaæfingu hjá 8. flokki kvenna í Breiðablik

Um síðustu helgi hélt KSÍ ráðstefnu um fjölgun iðkenda í yngri flokkum kvenna. Þótt kvennalandsliðið hafi náð miklum árangri undanfarin ár hefur iðkendum ekki fjölgað og jafnvel fækkað á sumum stöðum.

Kynnt var áhugarvert leikskólaverkefni Fram og Pálmar Guðmundsson frá Grindavík sýndi fram á mikilvægi þess að fá áhugasama þjálfara til að vinna með ungum stúlkum. Þarna mátti heyra góðar sögur sem hafa skilað árangri, félögunum til sóma.

Sverrir Óskarsson kom fram fyrir hönd Breiðabliks og kynnti starf 8. flokks kvenna en 80-90 stúlkur á aldrinum 3-6 ára æfa knattspyrnu að staðaldri hjá Breiðablik. Sverrir hefur ásamt þjálfurum 8. flokks unnið frábært brautryðjendastarf fyrir þennan aldursflokk en áður en boðið var upp á sérstakar æfingar fyrir stelpur haustið 2012 voru ekki nema 10-15 á þessum aldri að æfa fótbolta.

Sverrir hefur lengi starfað í hópi frábærra barnaþjálfara hjá Breiðablik. Hann sýndi einnig þetta myndband sem hann tók saman fyrir þjálfararáðstefnu Bandaríska Þjálfarasambandsins.

Þegar Sverrir hafði lokið máli sínu tók ég við og benti á að innan Breiðabliks hefði orðið mikil hugarfarsbreyting undanfarinn áratug hvað varðar þjálfun og aðbúnað yngri flokka kvenna. Þrír af hverjum fjórum þjálfurum hjá Breiðablik hafa þjálfað bæði kynin undanfarin ár og sem yfirþjálfari finn ég ekki fyrir fordómum þjálfara gagnvart því að vinna með stúlkum frekar en strákum. Stjórn og unglingaráð eru jafnframt mjög jafnréttissinnuð og ekki eru greidd hærri laun fyrir að þjálfa stráka en stelpur. Félagið hefur að auki metnað fyrir því að hafa góða þjálfara á yngstu flokkunum sem og þeim eldri. Breiðablik hlaut jafnréttisviðurkenningu frá Kópavogsbæ á síðasta ári fyrir starf sitt í kvennaflokkum.

Áherslan á góða þjálfun í Breiðablik, eins og Grindavík hefur greinilega gert hefur skilað því að fjölgun í kvennaflokkum hefur verið ævintýri líkust. Árið 2009 voru 16 stúlkur í 3. flokki kvenna, 35 í 4. flokki kvenna, 40 í 5. flokki kvenna og 25 í 6. flokki kvenna. Sumarið 2014 verða 40 stúlkur í 3. flokki kvenna, 80 í 4. flokki kvenna, 80 í 5. flokki kvenna og 90 í 6. flokki kvenna.

Þetta er mikið fagnaðarefni. Við heyrum útundan okkur athugasemdir á borð við að Breiðablik leggi of mikla áherslu á kvennaknattspyrnu. Að félagið sé Pæjumótsklúbbur og svo framvegis. Þeir sem halda slíku fram gleyma því að á sama tíma hefur vegur karlaboltans vaxið heldur betur þannig að félagið sem var áður grænt og féll á haustin er nú ávallt listað í topp 4-5 þegar sérfræðingar spá fyrir um sumarið.

Þeir sem komu á leik FH og Breiðabliks í Kaplakrika í gærkvöldi og sátu með stuðningsmönnum Blika gátu séð troðfulla stúku. Þar á meðal var stór hluti ungra stúlkna sem gerðu sér ferð í Hafnarfjörð til að horfa á Finn Orra, Gunnleif og Árna Vill spila fótbolta. Þar mátti sjá núverandi iðkendur úr 7. flokki upp í 2. flokk, fyrrverandi iðkendur sem eru sjálfar hættar knattspyrnuiðkun og foreldra stúlkna sem fara með þeim á völlinn. Knattspyrnan sjálf hefur grætt.

Jafnrétti í knattspyrnu skilar á þennan hátt örugglega meiri tekjum í kassann til lengri tíma litið fyrir þá sem mæla árangur í peningum. En eins og rætt var um á ráðstefnu KSÍ er þetta einfaldlega spurning um hvernig samfélag félögin vilja skapa fyrir sitt nærumhverfi. Fundarmenn voru sammála um að fjölmiðlar mættu taka þetta til athugunar. Það hefur sýnt sig að þegar ráðnir eru íþróttafréttamenn sem hafa áhuga á kvennaknattspyrnu hefur vegur hennar vaxið hjá þeim miðlum.

Á síðasta aðalfundi KSÍ kom fram tillaga um að breyta keppnisfyrirkomulagi í 2. flokki kvenna. Flest félög eru í vanda við að manna lið á aldrinum 17-19 ára. Ég vil meina að það skipti engu máli hverju er breytt hjá þeim eldri á meðan félögin sinna ekki þeim yngstu. Ef ekki næst í 3 lið í 5. flokki sumarið 2013 hvernig á þá að manna 2. flokk sumarið 2018.

Lengi býr að fyrstu gerð. Þjálfarar 8. flokks kvenna Sverrir, Kristinn, Lóa, Ella Dís og Esther eru að vinna frábært starf fyrir Breiðablik og íslenska knattspyrnu.