Echte liebe – Heimsókn til Þýskalands

Æfing hjá yngri flokkum BVB

Æfing hjá yngri flokkum BVB

Í byrjun mars dvaldi ég um vikuskeið í Þýskalandi til að fylgjast með æfingum hjá Borussia Dortmund og Borussia Mönchengladbach. Ég hafði planað að heimsækja evrópsk lið til að sækja mér þekkingu og heimsækja toppklúbba og valið stóð milli Spánar og Þýskalands. Bókin Soccernomics hafði svo ákveðið úrslitavald yfir ákvörðuninn en þar er bent á að svæðið í kringum Ruhr-héraðið og Benelux-löndin sé miðpunktur evrópskrar knattspyrnu enda óvenjulega mikill fjöldi atvinnumannaliða og framboð á toppknattspyrnu á litlu landfræðilegu og félagslegu svæði. Höfundar bókarinnar vilja meina að ein ástæða fyrir velgengni þessara þjóða (fyrir utan kannski Lúxemborg) sé sú að þar sé stutt fyrir góðar hugmyndir og fagleg vinnubrögð að ferðast á milli manna. Svæðið sé þannig „heitur reitur“ hvað knattspyrnuþjálfun varðar.

BVB Dortmund

Með aðstoð góðra manna komst ég að hjá Dortmund og fékk þar að fylgjast með öllum æfingum aðalliðsins og yngri flokka félagsins í fjóra daga. Dortmund er stórlið á alla mælikvarða, spilaði síðasta vor í úrslitum Meistaradeildarinnar, hefur nýlega orðið þýskur meistari undir stjórn Jurgen Klopps og leikur áhugaverða knattspyrnu. Félagið á risastóran áhangendahóp, sigraði Meistaradeildina 1997 og fékk nýverið viðurkenningu fyrir að vera fyrsta félagið í Evrópu sem tók á móti milljónasta áhorfanda á vellinum sínum í vetur.

Aðstaða yngri flokka BVB

Aðstaða yngri flokka BVB

Ég leigði íbúð milli Signal-Iduna Park (Westfalenstadion) og miðbæjar Dortmund og það var snemma augljóst að knattspyrnufélagið skiptir gríðarlega miklu máli í samfélaginu. Alls staðar sjást ummerki þess að félagið snerti strengi borgarbúa á margvíslegan hátt. Út um alla borg má sjá Dortmund-fána, gula litinn og slagorð á borð við „Echte liebe“ eða sönn ást. Á leikdag breyttist borgin í eitt stórt fótboltapartýpleis þar sem fólk fjölmennti eins og maurar upp göturnar í áttina að leikvanginum. Stemningin fyrir utan og innan völlin var mjög skemmtileg og slær út öllu sem maður hefur til að mynda upplifað í mörgum ferðum til Englands. Segja má að þýsk félög fari með áhangendur sína sem fjölskyldu á meðan ensk félög fari með þá sem viðskiptavini.

Æfingasvæði BVB er í úthverfi Dortmund og þar var vel tekið á mót mér fyrsta daginn og útskýrt að ég mætti fylgjast með öllu en það hefði enginn tíma til að sinna mér enda liðið í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar og mikið um að vera. Það hentaði bara vel og ég var eins og fluga á vegg í sex til átta tíma á dag.

Aðalliðið æfir eins og týpískt atvinnumannalið. Löng upphitun með jafnvægisæfingum, sendingaræfingar, taktík og létt spil. Lítið niðurlag og séræfingar í lokin. Mér fannst þeir fullrólegir fyrir minn smekk, utan einnar taktískrar æfingar þar sem Klopp lét vel í sér heyra. Það var áhugavert að fylgjast með honum. Samband hans við leikmenn, starfsmenn og áhorfendur er til fyrirmyndar þar sem hann high-fivear fólk eins og honum sé borgað fyrir það og virðist týpan þannig að hann gefur óendanlega mikið af sér. Hann tók tíma til að segja mér í byrjun hvað væri áhugavert að sjá og hvað ekki en lengra náðu samskiptin ekki. Hann spurði til að mynda ekki út í úrslit í Lengjubikarnum þá helgina.

En Klopp heillaði mig að því leiti að hann virtist nálgast alla á mjög mannlegum nótum og á sama leveli. Þannig tók hann þátt í að reyna að rassa leikmenn af 30 m færi án þess að þeir vissu af því og leikmenn gátu sömuleiðis strítt honum án þess að hann færi á of háan hest gagnvart þeim. Hann virðist njóta ómældrar virðingar starfsfólks, fjölmiðlamanna sem fylgdust með og áhangenda. Þegar hann tjáði sig þá lét hann hins vegar í sér heyra og vegna þess að hann hefur virðingu fólks var á hann hlustað.

Signal-Iduna Park / Westfalenstadion á leikdegi

Signal-Iduna Park / Westfalenstadion á leikdegi

Dortmund tapaði leiknum sem ég sá í lok vikunnar, 1:2 á heimavelli gegn Mönchengladbach. Liðið er í 2. sæti Bundesligunnar langt á eftir ofurmennunum í FC Bayern og áherslan virtist komin á Meistaradeildina. Það virðist hafa haft áhrif að missa leikmenn á borð við Götze og Kagawa undanfarin ár og til að mynda þarf Nuri Sahin að spila á miðjunni sem lofar ekki góðu. Leikmenn á borð við Reus, Gundogan og Mkhitaryan hafa verið meiddir og Lewandowski er kominn hálfa leið til Munchen.

Aðalliðið hefur ákveðinn leikstíl sem smitast greinilega í unglingastarfið. Það virðist þó vera meira óbeint en ætlað og barna og unglingaþjálfarar félagsins sögðu mér að þeir væru með mikið frelsi í sinni nálgun. Greinlegt var að rauður þráður var í gegnum alla flokka, svipaðar áherslur í varnar og sóknarleik og aðalliðið er með.

Dortmund sækir leikmenn sína eftir skóla og kemur með þá á æfingar. Allar æfingar eru 90 mínútur og þar af 30 mínútur í jafnvægis og styrktarþjálfun. Hlutfall leikmanna á þjálfara er uþb. 16/1. Unglingaliðin eru með eigin æfingavelli og aðstöðu við hliðina á aðalliðinu.

Það var lærdómsríkt og skemmtilegt að fá sér svala með nokkrum þjálfurum eftir æfingu. Þjálfarar liðsins höfðu engan áhuga á íslenskum fótbolta en töluðu mikið um S-Ameríku. Þangað horfa þeir.

Borussia Mönchengladbach

Ég fékk óvenju góðan aðgang að Borussia Mönchengladbach í gegnum tengsl við þjálfara hjá félaginu. Ég fékk að sitja morgunverðarfund með öllum 25 atvinnuþjálfurum klúbbsins þar sem þeir fengu fræðslu um gildi lyftinga fyrir knattspyrnumenn. Það var fræðandi og áhugavert að heyra þeirra sjónarmið. Eftir fundinn var öllum þjálfurunum skipað í galla og inn í lyftingarsal þar sem fitness-þjálfarar félagsins fóru með þá í gegnum æfingar sem þeir eiga að leggja áherslu á.

Treyjur þeirra sem hafa komið upp úr unglingastarfi Borussia

Treyjur þeirra sem hafa komið upp úr unglingastarfi Borussia

Borussia er mjög stór og áhugaverður klúbbur sem var upp á sitt besta á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar þegar Allan Simonsen og Gunter Netzer komu þeim langt í Evrópukeppnum. Ólíkt Dortmund er öll aðstaða félagsins á einum stað, hjá aðalavellinum sem tekur um 50.000 manns. Á staðnum eru ógrynni knattspyrnuvalla, sprettbrautir, brekkubrautir, lyftingaaðstaða, veitingastaður, skrifstofur og sjúkraþjálfunarstöð. Eins og í Dortmund var greinilegt að félagið er stór partur af borgarlífinu í Mönchengladbach. Ólíkt Dortmund er Borussia með metnaðarfullt kvennastarf, þar sem áherslan er á unglingastarfið en félagið hefur meðvitað ákveðið að fjármagna aðalliðið ekki sem úrvalsdeildarfélag heldur einblína á ungviðið.

Borussia Park í Mönchengladbach

Borussia Park í Mönchengladbach

Heimsókn sem þessi er nærandi og bætandi, enda gott að stíga út fyrir þægindarammann og sjá hvað er verið að gera. Íslensk félög geta að flestu leiti ekki borið sig saman við þýsk úrvalsdeildarfélög en það sem er hægt að læra er hvernig er umleikis á toppnum, hver standardinn er, hverjar áherslurnar eru og hvernig skipulagið virkar. Það er líka gott að vera ekki mataður endalaust á upplýsingum heldur að maður fái að lykta af réttinum sjálfur og móta sér skoðanir. Að mínu mati hafa Þjóðverjar mikið rúm til að bæta sig meira. Það er ógnvekjandi hugsun, að þeir geti orðið ennþá betri en þeir eru og það segir manni að það er margt óunnið í íslenskri knattspyrnu. Fyrir okkur sem þar störfum er það skemmtileg tilhugsun.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: