Af mölinni til Maksimir – um ávinninginn af Evrópusamstarfi

Af vef Rúv.is

Af vef Rúv.is

Fyrir tuttugu árum síðan var engin Reykjaneshöll, engin Fífa, enginn Kór, engin Egilshöll, engin Akraneshöll, engin Risi, enginn Bogi, engin Fjarðarbyggðarhöll, ekkert Hóp, engin Eimskipshöll og engin Hamarshöll. Þá voru enn tíu ár í að KSÍ hrinti af stað sparkvallaverkefni sem átti eftir að stórbæta aðstöðu skólabarna til knattspyrnuiðkunnar. Gervigrasvellir voru fáir og umsetnir. Íslenskir knattspyrnumenn æfðu í reiðhöllum, handboltahúsum og á malarvöllum stóran hluta ársins. Að hugsa sér að ekki sé lengra síðan.

Sérhæfðir knattspyrnuþjálfarar voru sárafáir, en í dag eru 176 íslenskir þjálfarar með A gráðu og 405 með B gráðu vottaða af KSÍ og UEFA. Þeir Íslendingar sem komust í atvinnumennsku liðu fyrir reglur sem takmörkuðu hlutgengi erlendra leikmanna. Evrópsk stórlið tóku frekar séns á Brasilíumönnum, Frökkum og Belgum. Tækifærin sem voru í boði fyrir einn besta knattspyrnumann Íslands fyrr og síðar Arnór Guðjohnsen voru mun takmarkaðri heldur en fyrir syni hans.

Vegna Evrópusamvinnu hefur íslensk knattspyrna gjörbreyst á tuttugu árum. Ísland gerðist aðili að EES samningnum 1. janúar 1994.  Ári áður varð til Meistaradeild Evrópu sem síðan hefur skapað gríðarlegar tekjur sem hefur verið deilt til knattspyrnusambanda og félaga um alla Evrópu, þar á meðal til Íslands. Árið 1995 urðu merk tímamót þegar Bosman málið gerði hundruðum íslenskum knattspyrnumönnum og konum kleift að gera íþróttina að atvinnu.

Samstarf Evrópuþjóða snýst fyrst og fremst um að tryggja öryggi íbúa álfunnar. Síðan um að tryggja hagsæld, velferð og tækifæri. Þjóðir sem nýta sér þau tækifæri sem bjóðast í Evrópusamstarfi og ganga til þess uppréttar og framsæknar geta aukið getu sína og hæfni þrátt fyrir þær takmarkanir sem þær kunna að búa við. Meðvitað eða ómeðvitað hafa formenn KSÍ frá Ellert B. Schram gengið röggsamir til verks í Evrópusamstarfi knattspyrnunnar. Þar hefur Íslendingum borið gæfa til að bera sig saman við til dæmis Dani, Hollendinga, Belga og Þjóðverja en ekki það versta sem fyrirfinnst í álfunni. Á síðasta ári var íslenskt A-landslið meðal 8 sterkustu þjóða Evrópu og öll yngri landsliðin komust í elítuumferðir sinna aldursflokka. Sjötíu og sjö íslenskir karlmenn og sextán konur höfðu atvinnu af knattspyrnuiðkun í Evrópu árið 2013.

Evrópusamstarf hefur haft mikil áhrif á íslenskt samfélag. Íslenskir knattspyrnumenn alast ekki lengur upp innan um hrossatað eða í handboltahöllum. Að ganga hugrökk og hnakkreist til verks hefur skapað ótal tækifæri fyrir nýjar kynslóðir knattspyrnufólks og skilað okkur á tuttugu árum af mölinni til Maksimir. Og þá er spurning, getum við náð enn lengra með opnu hugarfari eða leið okkur kannski bara vel á mölinni?