Venjur og siðir umfram markmið

Fyrsti dagur nýs árs nálgast óðfluga og þá þykir tilvalið að strengja áramótaheit. Eins og segir í laginu um nýársmorgun, “allt er á byrjunarreit”.

Fjörtíu og fimm prósent Bandaríkjamanna strengja oft nýársheit samkvæmt rannsóknum John Norcross við Háskólann í Scranton. Sautján prósent gera það sjaldan og þrjátíu og átta prósent gera það aldrei.

Tíu algengustu nýársheitin eru eftirfarandi

  1. Að léttast
  2. Að verða skipulagðari
  3. Eyða minni pening og spara meira
  4. Njóta lífsins til hins ítrasta
  5. Að vera í góðu formi og hlú að heilsunni
  6. Að læra eitthvað nýtt og spennandi
  7. Að hætta að reykja
  8. Hjálpa öðrum að láta drauma sína rætast
  9. Að verða ástfangin(n)
  10. Að eyða meiri tíma með fjölskyldunni

En einungis 8 prósent þeirra sem setja sér markmið, ná þeim samkvæmt Norcross.

25% hellast úr lestinni á innan við viku

54% eru gleymd að hálfu áru liðnu

Þetta myndband vísar í aðrar rannsóknir frá Bretlandi sem segja að 12% nýársheita haldi og því má reikna með að meðaltalið sé í kringum 10%.

Siðir og venjur í stað markmiða

Það er áhugavert samkvæmt rannsóknum Norcross að fólk sem setur sér ákveðin markmið er 10 sinnum líklegra til að ná þeim en þeir sem gera það ekki. Yngra fólk er jafnframt líklegra en eldra til að ná markmiðum sínum. Yfirsálfræðingur Chelsea, Tim Harkness hélt vinnustofu á Íslandi síðasta vetur þar sem hann hvatti þátttakendur til þess að færa áherslur af markmiðinu og yfir á siðina og venjurnar sem ýttu undir árangur.

Image

Tim Harkness

Ef einhver ætlar sér að missa tíu kíló er hann kominn með núverandi staðsetningu sína og væntanlegan áfangastað en hann vantar ferðamátann. Yfirmarkmiðinu um tíu kíló þurfa að fylgja góðir siðir og venjur sem koma honum þangað.

Knattspyrna er lífstíll  

Margir ungir knattspyrnumenn og konur eiga sér draum um að spila í landsliði eða sem atvinnumenn. Það er háleitt markmið, þar eru margir að berjast um takmörkuð gæði og margt þarf að smella saman til að það náist. Hvorugt markmiðið er líklegt stundi viðkomandi ekki heilbriðgan lífstíl hvað mataræði, hvíld og vímuefnaneyslu varðar. Sífellt fleiri dæmi má finna meðal afreksunglinga um einstaklinga sem neita sér alfarið um sælgæti og gos eins og fullorðnir afreksmenn neita sér um áfengi. Gott hugarfar og góðar venjur og siðir styðja við hvert annað. Þeir sem mæta oftar á æfingar, sjaldnar seint, leggja sig fram og hugsa um hvað þeir eru að gera eru líklegri til að ná árangri. Líkurnar á að komast alla leið í A landsliðið eru mjög litlar en til að komast þangað þurfa venjur og siðir að styðja við markmiðið.

Viljastyrkur +

Harkness segir að hann sjálfur og margir aðrir hafi haldið að viljastyrkur sé nóg til að breyta hlutum og hegðun sem þarf til að ná árangri. Að ef fólk breytir ekki venjum og siðum sé það einfaldlega vegna þess að það vilji það ekki nógu mikið. Hann segir að svo sé ekki. Styðja þurfi við viljastyrkinn með amk. fjórum af eftirfarandi sex þáttum:

Eigin áhugahvöt

Harkness segir að það skiptir máli að gera eitthvað sem þér finnst gaman að til að ná árangri. En eins og kom fram að ofan þarf líka að gera leiðinlega hluti til að skara framúr. Fólk getur þjálfað sig upp í að finnast leiðinlegir og erfiðir hlutir skemmtilegir. Miklar og markvissar æfingar geta skilað árangri og þar eiga þeir bestu sameiginlegt að fórna skólaferðalögum eða koma seint í fjölskylduboð vegna æfinga. Þeir stunda líka fleiri aukaæfingar en aðrir, eru oftar í fótbolta og æfa leiðinlegu hlutina sjálfir eins og Oliver Sigurjónsson, unglingalandsliðsmaður og atvinnumaður hjá AGF í Danmörku komst eitt sinn vel að orði við unga Blika.

Eigin hæfni

Allir hafa styrkleika og veikleika. Maður þarf að gera sér grein fyrir því hvað maður getur gert vel og hvað ekki. Síðan þarf maður að eyða tíma og orku í að auka hæfnina, með því að endurtaka hluti sem maður kann ekki nógu vel. Hér skiptir máli að greina hvaða hæfni það er sem er nauðsynleg til að ná markmiðinu og stunda hana markvisst.

Ryan Giggs spilaði lengstum ferilsins á vinstri kanti. Á efri árum vildi Ferguson færa hann stundum yfir á hægri eða á miðjuna. Þá kom í ljós að öll skynjun Giggs var skilyrt því að spila á kantinum með völlinn hægra megin við sig og útiloka áhorfendur vinstra megin. Markviss vinna með íþróttasálfræðingum sem unnu í sjónrænni þjálfun skilaði því að Giggs gat spilað á miðjunni í toppliði.

Hægir leikmenn geta aukið hæfni sína með því að vera góðir að lesa leikinn, staðsetja sig rétt og vera fljótir að láta boltann vinna fyrir sig. Leikmenn sem geta haldið oft á lofti auka hæfni sína til að taka við bolta og spyrna honum. Leikmenn sem eru jafnfættir eru dýrmætir.

Félagsleg hvatning

Það hjálpar að sækja hvatningu úr umhverfi sínu, úr félagsskap annarra sem styðja við góða siði og venjur. Þetta má kalla jákvæðan eða neikvæðan hópþrýsting. Fyrst þarf að skilgreina hvað er jákvætt og hvað er neikvætt og reyna svo að auka á það fyrra og draga úr því seinna.

Ung knattspyrnukona sem ætlar að komast í A landsliðið þarf að velta því fyrir sér hvort reglulegt djamm um helgar með vinkonum sínum og skyndibitaát í skólapásum sé líklegt til afreka eða ekki. Til eru fjölmörg dæmi um knattspyrnukonur sem hafa breytt hegðun eftir að hafa „teikað“ liðsfélaga með jákvæða hegðun nái lengra en þær hefði órað fyrir. Þær mæta fyrr á æfingar, oftar í ræktina, sofa meira og neita sér oftar um ruslfæði og djamm. En það eru örugglega fleiri dæmi um knattspyrnukonur sem hafa teikað liðsfélaga með neikvæða hegðun.

Félagsleg hæfni

Harkness lýsti því á námskeiðinu hvernig hann myndi sjálfur bera sig að ef hann ætlaði að hlaupa maraþon á næsta ári. Þá myndi hann skrá sig í hlaupahóp og vingast við aðra hlaupara. Hann myndi bæði læra af þeim góðar venjur og apa eftir þeim góða siði. Hópurinn myndi veita honum stuðning í gegnum ferlið sem þyrfti að ganga í gegnum til að verða góður hlaupari. Með þessu myndi hann læra að borða, hvílast, æfa og skipuleggja sig eins og maraþonhlauparar gera. Þetta væri mun líklegra til árangurs heldur en að fara sjálfur út að hlaupa og finna allt upp hjá sjálfum sér. Siðir og venjur hópsins yrðu hans eigin.

Harkness benti jafnframt á að það skipti gríðarlegu máli að fá stuðning maka og fjölskyldu til að ná markmiðinu, sama hvort það væri að sofna kl. 22 til að hafa orku í næsta dag, borða salat frekar en hamborgara til að léttast eða eyða öllum laugardagsmorgnum í langhlaupum. Ef kona hans og börn tækju ekki þátt eða styddu ráðahaginn væri líklegra að hann gæfist upp.

Ef foreldrar, kærustur, þjálfarar og liðsfélagar styðja vel við bakið á ungum knattspyrnumanni er líklegra að árangurinn verði góður. Ef vinahópurinn heldur í aðra átt en maður sjálfur er spurning hvort maður fylgir eða sker sig úr. Til eru mörg dæmi um unga knattspyrnumenn sem hafa slitið sig frá siðum og venjum æskuvinanna og uppskorið atvinnumennsku að launum.

Skipulögð hvatning

Við tengjum verðlaun fyrir hegðun við gulrætur. Ef gulrætur dagsins í dag eru ekki að skila árangri þarf að finna nýjar. Harkness er áhugahjólreiðamaður og hjólar langa vegalengd í vinnuna á hverjum degi. Í stað þess að keyra í umferðinni í London getur hann ferðast um stíg sem liggur í gegnum fallegan skóg. Hann ákvað því að hunsa þægindin sem fylgja því að sitja í bifreið og tengja þau frekar við að sitja fastur í umferð. Hann mælir verðlaunin í því að vera í náttúrunni, fersku lofti og því að hann eyði minni pening í bensín. Hann er með GPS tæki á sér og setur sér lítil markmið á hverjum degi.

Skipulögð hvatning í knattspyrnuiðkun gæti falist í því að setja sér markmið um að mæta á allar æfingar í hverri viku. Annað markmið gæti verið að vera aldrei seinn á æfingar og svo að æfa sig sjálfur aukalega í 30 mínútur eftir hverja æfingu. Gott markmið er að reyna að vinna allar keppnir sem maður tekur þátt í á æfingunni, sama hvort það sé sprettæfing, 1v1, halda bolta innan liðs eða spil. Alvöru knattspyrnukona myndi til dæmis setja sér það markmið í skotæfingu að skora úr 80% af skotunum sínum. Þær allra hörðustu eiga svo örugglega skrifað niður heima hjá sér hvernig gekk á hverri æfingu fyrir sig. Gulrætur geta leynst víða.

Skipulögð hæfni 

Þegar Harkness hjólar í vinnuna hjálpar það honum að hann getur auðveldlega lagt hjólinu sínu innandyra í sérstakri hjólageymslu, hann getur farið í sturtu og geymt fötin sín í vinnunni og þannig byrjað daginn hreinn og ferskur.

Skipulögð hæfni snýst um að búa sér til aðstæður sem gera þá siði og venjur sem við sækjumst eftir auðveldari. Ef dagskrá og umhverfi eru skipulögð þannig að þau ýta undir góðar venjur verða þær sjálfsagðar, en ekki ósjálfsagðar.

Sem betur fer eru flestir meistaraflokkar í knattspyrnu nú með sína eigin búningsklefa og þjónustu við leikmenn liðsins því annars væri hætt við að margir skór, sokkar og húfur myndu gleymast heima. Krakkar í knattspyrnu kvarta stundum yfir því að hafa ekki komist heim á milli skóla og æfingu og þess vegna séu þau orkulaus. Aðrir taka með sér nesti í skólann gagngert til þess að borða á milli. Skipulag tómstunda og fjölskyldustunda verður einnig að styðja við æfingar og leiki.

———————-

Harkness er mjög áhugaverður fyrirlesari sem hefur komið hingað til lands á vegum KINE og mun líklega gera það áfram. Fyrirlestrar hans eru svo sannarlega þess virði að sækja þá, sama hvort maður sé einn af þeim sem standa við áramótaheitin eða einn af öllum hinum sem gera það ekki.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: