Epli og appelsínur, uppáhöld ömmu og afa

Reykjavík hefur verið kosin besti staður ársins á Íslandi árið 2013. Dómnefnd skipuð fólki sem býr flest í Reykjavík komst að þessari niðurstöðu. Akureyringar hafa brugðist ókvæða við á samfélagsmiðlum en Reykvíkingar hafa svarað fyrir sig með kaldhæðnum athugasemdum á móti. Fólk á Hellissandi hristir bara hausinn enda býst það ekki við miklum árangri í þessari keppni. Þjóðin bíður nú spennt eftir niðurstöðu úr því hver verður valinn ávöxtur ársins, epli eða appelsína. Hvers eiga perur og bananar að gjalda í þeirri keppni?

Gylfi Sigurðsson er vel að því kominn að vera kosinn íþróttamaður ársins. Hann spilar í toppliði í erfiðustu deild í vinsælustu íþrótt í heimi. Hann veitti þjóðinni innblástur með frábærri frammistöðu í undankeppni HM. Að bera hann saman við Anitu Hinriksdóttur, Söru Björk Gunnarsdóttur eða Guðjón Val Sigurðsson er hinsvegar eins og að bera saman barnabörnin sín og útnefna eitt þeirra barnabarn ársins.

Þetta gæti sett skemmtilegt tvist á áramótakvöldverð fjölskyldunnar. Hvern velja amma og afi sem barnabarn ársins?

Suarez er bestur

Hver er bestur, Lionel Messi eða Cristiano Ronaldo? Eða Frank Ribery? Persónulega finnst mér enginn þeirra standast Luis Suarez samanburð, en það er kannski bara af því að ég held með liðinu sem hann spilar með. Annars finnst mér þeir allir frábærir. Mér fannst líka Maradona betri en Pele en það er kannski útaf því að hann var á hátindinum þegar ég var að alast upp. Annars er það skrýtið að velja besta leikmanninn í knattspyrnu. Rannsóknir benda til að það skiptir meira máli að veikasti hlekkur liðsins sé sterkari heldur en veikasti hlekkur andstæðinganna heldur en að sterkasti hlekkurinn sé sterkari en sterkasti hlekkur andstæðinganna. Það væri því nærtækara að velja lið ársins ef menn ætla að velja eitthvað á annað borð. Þetta er nú einu sinni hópíþrótt.

Annars skiptir hópíþróttamenn litlu máli annað en árangur í deildum og keppnum. Þeir alast upp langandi til að verða Íslandsmeistarar eða enskir meistarar. Einstaklingsverðlaun eru bónus.

Óþarfi að æsa sig

Það vita allir að Forrest Gump er betri kvikmynd en Pulp Fiction. Eða hvað? Óskarsverðlaunin hafa oft þótt umdeild og þegar Shakespeare in Love bar sigur úr býtum var umtalað að Weinstein bræðurnir sem framleiddu myndina hefðu lagt í mikla markaðsherferð gagnvart þeim sem höfðu kosningarétt, meðlimum akademíunnar.

Verðlaun á borð við íþróttamann ársins eru tegund af „industry awards“ eða fagverðlaunum. Eins og Félag íslenskra bókaútgefenda halda íslensku bókmenntaverðlaunin til að geta smellt límmiðum á bækurnar sínar, heldur sjónvarps og kvikmyndaiðnaðurinn Edduna til að geta skreytt sig með verðlaunum til að markaðssetja efnið sitt. Já og allar verðlaunahátíðir eru haldnar til að hittast, gleðjast og skála.

Íþróttamaður Íslands er ekki valinn af íþróttamönnum eða sérsamböndum. Hann er valinn af íþróttafréttamönnum sem eru fámenn stétt sem nýtti 80,55% af dálksentimetrum árið 2006 í umfjöllun um knattspyrnu og handknattleik í tveimur stærstu dagblöðunum. Körfuknattleikur og golf fengu 12.83% og allar aðrar íþróttir 6.62% af plássinu. Ljóst er hvar áhugasvið íþróttafréttamanna og lesenda þeirra liggur, enda var Örn Arnarsson síðasti íþróttamaður ársins sem stundaði ekki handbolta eða fótbolta. Það var árið 2001. Annars er þetta gott sjónvarpsefni og tilefni til að hittast. Ef Gylfi hefði fengið að velja milli þess að vera íþróttamaður ársins og komast á HM eða vinna stóran titil með Spurs hefði líklega ekki þurft að spyrja hann tvisvar.

Amma og afi eiga greinilega uppáhaldsbarnabörn þegar kemur að íþróttamanni ársins. Það sýna þau í orðum og gjörðum. Fólk ætti ekki að vera hissa og taka þessum verðlaunum eins og Óskarsverðlaunum, skemmtilegu sjónvarpsefni þar sem er verið að bera saman epli og appelsínur.

2 Responses to Epli og appelsínur, uppáhöld ömmu og afa

 1. Arnar Ólafsson says:

  Ekki sammála að áhugasvið lesenda eða neytenda sé í takt við framboð efnis. Það nægir að skoða áhorfstölur Gallup í því samhengi. Konur horfa td í lægra hlutfalli á kvenna- en karlaknattspyrnu! Ýmsar íþróttir, jafnvel kvenna, eru með þrefalt meira áhorf en þær boltagreinar kvenna sem sýnt er frá.

  • Daði Rafnsson says:

   Rétt Arnar, framboð á íþróttaefni ræðst örugglega frekar af áhugasviði íþróttafréttamanna heldur en áhuga lesenda.

   Hvað segir það um fjölmiðla á frjálsum markaði ef þeir sinna ekki því sem fólk vill?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: