Hvenær má keppa til sigurs?

Image

Hvenær á maður að kenna börnum að keppa til sigurs í leik? Svarið er alltaf.

Tilgangur leikja er að sigra mótherjann. Sjö ára börn í knattspyrnuleik eiga að reyna að vinna. Það væri alveg fáránlegt að setjast niður í skák eða lúdó og reyna ekki að sigra. Lið eiga alltaf að reyna að sigra. Annars gætu þau sleppt því að koma til leiks.

En í grunninn er þetta ekki svo einfalt. Í raun er þetta mjög flókið og keppnishugtakið þvælist fyrir íþróttafólki um allan heim.

Það er talinn kostur að vera tapsár í íþróttum. Sagðar eru hryllingssögur af nöfnunum Michael Jordan og Owen sem gátu ekki sest niður í spil með félögunum án þess að gera allt vitlaust. Vinir þeirra og fjölskyldur telja þetta vera stærsta gallann þeirra, að þeir tóku ósigri illa. En að einhverju leiti hefur þessi eiginleiki átt þátt í að koma þeim á hæsta stall sinnar greinar. Um afrek Jordan þarf ekki að fjölyrða og þrátt fyrir að meiðsli hafi sett strik í reikninginn hjá Owen er hann eini breski leikmaðurinn sem hefur verið valinn knattspyrnumaður Evrópu á þessari öld.

En sigur er ekki sigur, sama hvernig hann er unninn.

Þetta er ekki hægt að endurtaka nógu oft; Íþróttir barna eru ekki smækkuð mynd af íþróttum fullorðinna. Ef verkefnið er ekki við hæfi er sigur lítill mælikvarði á getu og hæfni. Og að auka hæfni er það sem er íþróttir barna og unglinga eiga að ganga út á.

Til að setja hlutina í samhengi þá væri það skrýtinn pabbi sem færi að birta myndir af sér sigrihrósandi á Facebook eftir að hafa sigrað tíu ára dóttur sína í skák. Skákin milli feðginanna ætti að ganga út á að sá eldri væri að kenna þeirri yngri færni til að verða betri. Ef hann myndi spila til sigurs í hverjum leik væri stutt í að dóttirin myndi hætta leik og halda sig frá skák í framtíðinni. Hún myndi missa áhuga og án áhuga er ekki líklegt að hún öðlist færni.

Þetta er öfgafullt dæmi og vonandi er þessi pabbi ekki til. En komdu á N1 mótið næsta sumar og athugaðu hvort þú sjáir „yngra árs A lið“ sigra C liða keppnina. Líttu við á Símamótinu og sjáðu leikmenn úr A liði 6. flokks hlaupa yfir á næsta völl til að koma C liði 5. flokks í úrslitin. Kíktu á riðlaskiptingu KSÍ móta og sjáðu muninn á milli efstu og neðstu liðanna. Erfiðasta verk þjálfara er að finna verkefni við hæfi fyrir lið sín.

Í vor sendi KSÍ út tilmæli til þjálfara um að ekki væri æskilegt að senda A lið til keppni C liða fyrir ofan. Hvers vegna skildi það vera? Fyrir nokkrum árum komst 5. flokks C lið sem var dæmigert C lið að getu inn í úrslitakeppni sér að óvöru þar sem það hafði ekki lent í efstu tveimur sætunum. Þar vann það riðilinn sinn með litlum mun og var loks komið í undanúrslit. Drengjum sem þurftu á auknu sjálfstrausti að halda var svo snarlega kippt niður á jörðina þegar A lið 6. flokks annars félags tók þá í bakaríið og fór alla leið og tryggði sér titilinn. Í stað þess að fagna góðum árangri var lærdómurinn sem þeir drógu sjálfir af þessu að þeir hefðu tapað fyrir yngri börnum. Sjálfstraustið beið verulegan hnekki.

Misþroski

Vandinn við samanburð í keppni barna og unglinga felst ekki síst í því hversu misþroska mótherjar geta verið. Í fjórða flokki eru nú krakkar að keppa sem eru fædd 1. janúar 2000 og 31. desember 2001. Innan þessa mengis geta verið krakkar sem eru komnir yfir 1.80m á hæð og aðrir sem hafa ekki náð 1.60m. Enn erfiðara er að greina andlegan þroskamun. Eitt erfiðasta verkefni þjálfara er að reyna að greina á milli þess hvort yfirburðir barna og unglinga felist í þroska eða hæfni. Þjálfarar verða að reyna að sjá inn í framtíðina og leita leiða til að gefa leikmönnum sínum verkefni við hæfi. Hjá bestu unglingaakademíu á Englandi, Southampton hafa menn farið ólíkar leiðir eftir einstaklingum. Theo Walcott spilaði upp fyrir sig en Alex Oxlade-Chamberlain spilaði með yngri leikmönnum, sem sagt flokki niður fyrir sig. Á meðan bönnum við á Íslandi krökkum sem vilja vera í marki í A liði í 5. flokki að keppa úti með A2 eða B liði. Bestu markmenn í heimi eru flestir þrusugóðir úti. Við drögum úr möguleikanum á því að búa til betri knattspyrnumenn vegna ótta þjálfara við að tapa leikjum.

Verkefni við hæfi 

Ákveðinn hugsunarháttur lifir enn góðu lífi í íslenskum íþróttaheimi. Berjast strákar berjast. Drepa, éta, hreykja sér. Aðspurður sagði þjálfari sem var að svara því af hverju D lið félagsins væru svona ógnarsterk að það væri svo gaman fyrir leikmennina að skora mikið af mörkum og vinna. Það væri svo hvetjandi. Hér var mótherjinn ekki hugsaður sem andstæðingur, heldur sem bráð.

En þetta er að breytast. Þjálfarar eru farnir í auknum mæli að segja hugsa strákar hugsa í staðinn. Leggja á sig, öðlast hæfni, framkvæma og uppskera. Enda eykst færni íslenskra knattspyrnumanna kynslóð frá kynslóð. Enn eimir af gamaldags hugsunarhætti í íþróttaheiminum. Þeir tala um aumingjavæðingu og að þeim sjálfum hafi ekki orðið meint af allskonar ófögnuði á árum áður. Það þýðir ekki að það þurfi að elta ófögnuðinn ef betri leiðir eru í boði.

Betri leiðir

Handboltinn er með fyrirkomulag í yngri flokkum sem væri áhugavert að sjá í auknum mæli í knattspyrnu. Lið spila túrneringar og vinna sig upp og niður á milli túrnerninga. Þannig fær maður léttari keppni næst ef sú síðasta var of erfið og öfugt. Þetta er gott því það gefur leikmönnum færi á að öðlast fjölbreytta færni. Vísir af þessu er nú á Shell-mótinu í Eyjum og á Símamóti Breiðabliks. Þar hefur þetta fyrirkomulag verið þróað þannig að í sumar hafði ójöfnum leikjum verið fækkað til mikilla muna. Og ánægja þjálfara og foreldra hefur aukist sömuleiðis þótt enn eigi eftir að finna bestu leiðina til að útkljá leiki. Í svona móti getur Valur 2 endað gegn Breiðablik 5 og HK 2 gegn Breiðabliki 8 síðasta daginn í staðinn fyrir að þurfa að eiga við Breiðablik 2 og FH 2 eins og í Íslandsmótinu. Í Íslandsmótum yngri flokka er enn haldið í ABCD fyrirkomulag sem forsvarsmenn minni félaga segja að sé að drepa niður áhuga. Við hljótum að geta gert betur.

Í gamla Símamótinu lenti Breiðablik 1 einu sinni í riðli með liði af landsbyggðinni sem var með tvö lið. Breiðablik var með 80 iðkendur en mótherjarnir 18. Breiðablik 1 sigraði að lokum mótið. Eftir fjórar mínútur var ljóst að stefndi í mikið óefni og þjálfarinn fékk tækifæri til að ræða við leikmenn sína. Tólf ára leikmenn eiga erfitt með að skilja af hverju þeir mega ekki bara klára leikinn eins og þeim sýnist en þegar búið var að útskýra fyrir þeim voru þeir með á nótunum. Allt kapp var lagt á að skora mark þar sem allir leikmenn liðsins kæmu við boltann í sömu sókn. Fyrir áhorfendum breyttist leikurinn í farsa, fyrir Breiðabliki í æfingu og mótherjarnir fengu jafn lítið út úr honum og áður en skorinu var þó haldið í skefjum. Þegar takmarkinu var náð fögnuðu leikmenn Breiðabliks loksins. Þeir höfðu fengið verkefni við hæfi til að keppa að og fengu eitthvað út úr leiknum. Allir aðrir horfðu á þá eins og þær væru stórskrýtnar. Skömmu síðar var skundað á næsta völl þar sem Valur 1 varð að fara svipað að með Breiðablik 4. Eins og á við marga aðra leiki í keppni barna og unglinga hefði verið betra ef þessar uppákomur hefðu aldrei átt sér stað.

Fleiri betri 

Ef börn og unglingar fá keppni við hæfi, þar sem þau snerta boltann oft, eru að keppa jafna leiki og fá bæði að reyna að sigra og tapa er líklegra að þau þroski með sér hæfni sem gerir þau að betri leikmönnum þegar þau verða eldri.

Þegar fjölmenn félög senda fleiri en eitt A lið til keppni eru þau að reyna að auka við hæfni allra leikmanna sinna, sama hvar þeir eru staddir í ferlinu á þeirri stundu. Ef „B“ liðið fer upp þýðir það að „C“ liðið þarf líka að fara upp og svo framvegis. Allir fá erfiðari en jafnframt meira krefjandi keppni. Fórnarkostnaðurinn gæti verið einn og einn bikar hér og þar en fleiri verða betri í sinni grein. Um það eru sterkar vísbendingar þar sem þannig hefur verið haldið á spöðunum. Ef fámennt félag hefur ekki burði í að keppa í A liða keppni gæti íþróttin einnig verið að missa af fjölda leikmanna sem hætta en hefðu getað fengið tækifæri í viðeigandi keppni til að þroska hæfileika sína og ná árangri seinna meir.

Krakkar eiga alltaf að keppa til sigurs. Í skák við pabba, hlaupum við mömmu, fótbolta með félaginu sínu og í körfubolta við frænda.

Margt bendir til að mikið framboð af keppni hafi ýmis jákvæð áhrif á íslenkt knattspyrnufólk þegar það er að alast upp. En eitt er allavegana á hreinu. Alvöru keppnismenn fagna ekki innantómum sigrum.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: