Hugarfar III – Vaxtarmiðað hugarfar

Enginn íslenskur knattspyrnumaður hefur náð jafn langt og Eiður Smári Guðjohnsen. Að vera lykilmaður í fyrsta Chelsea liði Mourinho og í hópi Barcelona undir Guardiola er nokkuð sem fáir leika eftir á ferlinum, sama hvaðan þeir koma.

Eiði hefur gengið vel með íslenska landsliðinu undanfarið og var spurður að því eftir leikina gegn Kýpur og Noregi af hverju hann væri ekki fastamaður í félagsliði sínu, Club Brugge. Hann svaraði því til að þjálfarinn hefði greinilega ekki nægilega trú á sér. “Er það þá ekki mitt að breyta því?”

Eiður hafði svarað á svipaðan hátt þegar Auðunn Blöndal heimsótti hann fyrir El Clasico leik í Barcelona fyrir nokkrum árum. Hvað myndi hann hugsa ef hann kæmist að því að hann væri ekki í liðinu gegn Real Madrid? Í fyrstu myndi hann vera svekktur, “en svo fer ég að undirbúa mig undir að koma inná og skora sigurmarkið”.

Ef maður sem hefur spilað með Henry, Ronaldinho, Messi, Lampard, Terry, Robben, Iniesta og Xavi hugsar svona, hvernig takast þá aðrir knattspyrnumenn á við það að vera ekki valdir í liðið sitt? Með því að hætta, skipta um félag, kenna öðrum um? Eða einfaldlega gera betur og bíða tækifærisins? Vera svo tilbúinn þegar það kemur?

gsg

Að líta í eigin barm

Grétar Sigfinnur Sigurðsson fékk þau skilaboð frá KR síðasta vetur að hann mætti leita sér að öðru liði. Hann væri ekki í plönum þjálfarans. Í stað þess að gefast upp sneri hann slæmri stöðu sér í vil og spilaði alla leiki sumarsins fyrir Íslandsmeistarana. Í samtali við Morgunblaðið sagði Grétar;

„Jú jú, þeir ætluðu bara að losa sig við mig. Þegar maður lendir í svona aðstæðum þá þarf maður stundum að líta í eigin barm í stað þess að kenna öðrum um. Þrátt fyrir að manni finnist eitthvað ósanngjarnt þá er það ekki alltaf öðrum að kenna. Ég hugsaði út í það hvort ég hlyti ekki að vera að gera eitthvað rangt og kom mér í betra form en ég hafði verið í. Ég lagði harðar að mér og hugsaði betur um matarræðið. Ég ætlaði mér að sýna að ég ætti heima í KR-liðinu og gerði það. Ég var því gríðarlega ánægður með það. Ég er uppalinn KR-ingur og þetta er sá staður sem ég vill vera á. Hjartað er hérna og ég get ekki verið sáttari eftir að hafa lent í þessu mótlæti í vetur. Vonandi hef ég sett fordæmi fyrir aðra því svona lagað gerist á hverju tímabili hjá flestum liðum. Menn þurfa ekki alltaf að hlaupa í burtu heldur geta menn einnig hugsað sinn gang og gert betur.”

Vaxtarmiðað hugarfar

Eiður og Grétar eiga það sameiginlegt að hafa sýnt vaxtarmiðað hugarfar þegar þeir mættu mótlæti. Báðir hafa náð að snúa erfiðri stöðu sér í vil. Eiður með landsliðinu á meðan félagsliðið getur ekki nýtt sér krafta hans og Grétar með félagsliðinu sem taldi sig ekki þurfa á honum að halda. Þeir héldu áfram og létu ekki bugast.

Þetta þýðir ekki að allir gætu farið sömu leið eða að þeir séu alltaf með vaxtarmiðað hugarfar gagnvart öllum hlutum. Stundum er fullreynt eins og Eiður hefur upplifað hjá mörgum félögum á sínum ferli. En hann heldur áfram. Gefst ekki upp. Hann hefur líklegast náð að vera eins góður og hann gat orðið. Alveg eins og Grétar Sigfinnur. Þótt hann hafi ekki náð jafn langt og Eiður hefur hann eftir sem áður átt glæstan feril. Hann hefur náð miklu út úr því sem hann hefur að spila úr.

Carol Dweck útskýrir vaxtarmiðað hugarfar á eftirfarandi hátt;

Fólk með vaxtarmiðað hugarfar er ólíkt þeim sem eru með fastmótað hugarfar. Þeir síðarnefndu einbeita sér að því sem hefur gengið vel og forðast nýjar aðferðir og áskoranir sem gætu mistekist. Aftur á móti vilja þeir sem trúa á vaxtarmiðað hugarfar ögra sjálfum sér til að verða betri, jafnvel þótt það þýði að þeim mistakist á leiðinni.

Dweck tók þátt í að gera rannsókn þar sem skoðað var hvernig hugarfar hefur áhrif á einkunnir nemenda í stærðfræði. Eins og búist var við stöðnuðu þeir sem höfðu verið greindir með fastmótað hugarfar á tveggja ára tímabili, á meðan þeir sem voru með vaxtarmiðað hugarfar tóku framúr þeim.

Þá var sett í gang átta vikna verkefni sem átti að kenna nemendunum nýja námstækni og hvernig þeir gætu lært að verða betri í stærðfræði. Heilanum var lýst sem vöðva sem yrði sterkari því meira sem honum væri beitt. Viðmiðshópur fékk að læra námstæknina en ekki lýsinguna á heilanum sem vöðva. Á tveimur mánuðum sýndi fyrrnefndi hópurinn marktækan mun hvað varðar bætingu og námstækni miðað við þann seinni.

Dweck sagði að það skipti máli hvernig hvatningu nemendurnir fengu. “Þeir fengu aukinn kraft úr þeirri hugmynd að þeir gætu sjálfir haft áhrif á heilann”. Ungur vandræðagemsi tók sérstaklega vel við sér þegar hann uppgötvaði að hann þyrfti ekki að vera heimskur. Allt í einu gat hann haft sjálfur áhrif á það hvaða hlutverk hann fengi í lífinu.

Það er bæði hægt að velja sér hugarfar og að móta það. Líka þegar það virðist vera erfitt. Carol Dweck útskýrir í myndbandinu hér að neðan hvernig hægt er að breyta hegðun hjá ofbeldishneigðum nemendum með vaxtarmiðuðum aðferðum.

Að rækta garðinn sinn 

Fólk með vaxarmiðað hugarfar trúir því ekki að allir séu jafnir eða geti orðið næsti Albert Einstein. Það trúir því hins vegar að allir geti haft áhrif á eigin frammistöðu og bætt við sig hæfni.

Það er  einfaldlega ekki nóg að ákveða að maður ætli að spila í Meistaradeildinni eins og Eiður Smári og eyða svo þremur klukkutímum á dag í fótbolta. Hlutir eins og umhverfi, aðstaða, markviss þjálfun, stuðningur foreldra, tækifæri og gen skipta miklu máli. Jafnvel þótt allt virðist fyrir hendi geta svo hlutir sem maður hefur ekki stjórn á ákvarðað hvort maður komist alla leið eða ekki. Pepe Reina væri líklega búinn að spila 100 landsleiki fyrir Spán ef hann væri ekki uppi á sama tíma og Iker Casillas. Victor Valdez og David De Gea vita það að sama hversu mikið þeir æfa sig þá má Del Bosque bara velja einn markmann í liðið. Árangur Spánar undanfarin ár er ekki síst tilkominn vegna frábærs liðsanda. Pepe Reina spilaði ekki mínútu í Suður Afríku árið 2010 en það er ekki að sjá á myndbandinu að ofan að hann hafi verið að svekkja sig mikið á því. Í staðinn tók hann þá ákvörðun að rækta garðinn sinn og uppskeran var blómleg með meiru.

Sterk heild betri en sterk stjarna

Viðhorf varamarkvarðarins Pepe Reina gerir landslið Spánar sterkara. Nýlegar rannsóknir í knattspyrnu benda til þess að það er mikilvægara að veikasti hlekkurinn í liðinu þínu sé sterkur heldur en að sterkasti hlekkurinn sé afburðarleikmaður. Lið á borð við Lyon, Dortmund og Porto vinna eftir þessu með góðum árangri. Ef veikasti hlekkurinn í KR er Grétar Sigfinnur (að því leiti að hann mátti fara frá félaginu), þá er liðið í góðum málum. Viðhorf Gunnleifs Gunnleifssonar og Alfreðs Finnbogasonar gagnvart því að sitja á bekknum hjá Lars Lagerback hefur eflt íslenska landsliðið svo um munar. Gunnleifur hringir í yfirþjálfara Breiðabliks til að biðja um æfingatíma í Fífunni fyrir KR-inginn Hannes Halldórsson og Framarann Ögmund Kristinsson á meðan beðið er eftir landsleiknum við Króata. Þótt þeir vilji allir standa milli stanganna 15. nóvember eru þessir leikmenn ekki keppinautar heldur liðsfélagar sem græða allir að lokum. Alfreð sem er markahæstur í Hollandi og dauðlangar að spila segir í viðtali við 433.is að bestu svörin eru alltaf á fótboltavellinum.

Dweck hefur kallað fastmótað hugarfar “framkvæmdastjóraveikina” eins og fram kom í síðasta pistli. En hún bendir líka á leiðtoga úr atvinnulífinu sem hafa náð árangri með vaxtarmiðað hugarfar. Bestu lögreglustjórarnir virðast til dæmis vera þeir sem hvetja hópinn sinn reglulega til dáða. John F. Welch hjá General Electric hefur sett liðsheildina framar einstaklingshyggju í sínu fyrirtæki. Louis V. Gerstner hjá IBM þakkaði starfsfólki sínu fyrir að hafa náð að snúa við gengi fyrirtækisins í bók sinni í stað þess að eigna sér heiðurinn eins og oft vill verða í slíkum ritum. Þegar Anne M. Mulcahy hjá Xerox varð að beita niðurskurðarhnífnum gekk hún til verks við að ýta undir endurmenntun og ánægju þeirra sem voru eftir.

Ljóst er að viðhorf til mannauðsstjórnunnar hafa breyst eins og viðhorf til íþróttaþjálfunar barna. Á báðum sviðum var lengi vel leitað að “stjörnum”, sjarmerandi fólki sem virtist hafa meðfædda hæfileika og hreif fólk með sér.

Hæfni + hugarfar 

Billy Beane og bókin Moneyball áttu mikinn þátt í að breyta hugarfari þeirra sem leita að ungu hæfileikafólki í íþróttum. Íslenskur knattspyrnumaður átti einu sinni að hafa krækt sér í stóran samning út á það hversu vel klæddur og sjálfsöruggur hann var þegar hann hitti þjálfarann. Nú eru menn sendir út af örkinni með það að leiðarljósi að velja ekki markmenn bara út af því að þeir líta út eins og markmenn ættu að gera (stórir, sjálfsöruggir, öskrandi) heldur út af áþreifanlegri viðmiðum (persónuleika, getu til að stýra vörn, hæfni í fótum). Markmenn bestu liðanna í ensku úrvalsdeildinni fá að meðaltali 2-3 skot á mark sitt í hverjum leik. Getan til að vinna með og stýra vörninni til að fækka skotum á markið er mikilvægari heldur en að geta hoppað upp í skeytin. Ef menn geta gert bæði á að kaupa þá á staðnum.

Vert er að taka fram að það er ekki nóg að hafa gott hugarfar heldur verður einnig að fylgja hæfni ef maður ætlar að ná afburðarárangri. Það bendir Dweck sjálf á og segir að sjálfsögðu verði fólk að leita eftir báðum eiginleikum hvort sem það sé við að velja í íþróttalið eða ráða starfsmenn. Bæði Linford Christie og Usain Bolt hafa reynt fyrir sér í knattspyrnu og Michael Jordan ákvað einu sinni að verða miðlungsgóður hafnaboltamaður. Það sem þeir höfðu hugarfarslega skorti þá í hæfni. Og að þróa með sér hæfni er enn erfiðara og flóknara en að velja sér hugarfar.

Næst: Hugarfar IV – Innri áhugahvöt

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s