Hugarfar II – Fastmótað hugarfar

Eftir að hafa kynnst Carol Dweck og kenningum hennar um hugarfar, fer fólk óhjákvæmilega að velta fyrir sér hvort það sé sjálft með fastmótað eða vaxtarmiðað hugarfar. Svarið er ekki einfalt. Við getum verið með bæði. 

Eins og með allar kenningar skyldi maður fara varlega með að ofálykta og hafa ofurtrú á kenningum Dweck. Þær geta reynst gagnlegar sem tól til að skilja flókna hluti eða sem hluta af aðferðarfræði til að nálgast þá. Ég reyni að vera vaxtarmiðaður sem knattspyrnuþjálfari, stundum tekst það og stundum ekki. En þegar kemur að búðarferðum í IKEA eða að því að setja saman sænsk fjöldaframleiðsluhúsgögn lokast mér öll sund og ég sekk í mýri fastmótaðs hugarfars eins og Max Koch hér að ofan.

Dweck útskýrir fastmótað hugarfar á eftirfarandi hátt;

“Nemendur með fastmótað hugarfar trúa því að grunnhæfni þeirra, gáfur og hæfileikar eru takmarkaðar auðlindir. Þau hafi bara ákveðið magn til að spila úr og geti ekki aukið við það. Þá verður markmið þeirra að reyna alltaf að líta út fyrir að vera klár og aldrei hafa rangt fyrir sér”.

Fastmótað hugarfar – Fixed mindset

Ég var læs á tveimur tungumálum þegar ég kom í grunnskóla sex ára gamall. Ég átti foreldra og ömmu og afa sem lásu mikið fyrir mig sem hjálpaði mér að læra snemma að lesa íslensku. Í fornöld níunda áratugarins var Andrés Önd ekki gefin út á íslensku og fékkst bara á dönsku. Þar sem þau höfðu ekki alltaf tíma til að lesa fyrir mig kenndi ég mér sjálfur að lesa dönsku líka. Það var ekki auðvelt í fyrstu. Ég man meira að segja óljóst eftir því að vera sífellt að spyrja hvað þetta og hitt þýddi. En svo kom þetta og vegna þessa voru fyrstu ár mín í grunnskóla allt of auðveld. Sjö ára var ég búinn að bæta við þriðja tungumálinu, ensku. Síðan þá hef ég ekki lært nýtt tungumál.

Sem barn hafði ég sýnt mikla eiginleika vaxtarmiðaðs hugarfars sem lýsti sér í dugnaði og endurtekningu gagnvart hverju sem ég hafði áhuga á en kom fyrst augljóslega fram sem árangur í lestri og tungumálum. Þetta átti eftir að koma sér bæði vel og illa þegar leið á skólaferilinn. Vel vegna þess að snemmlærð grunnfærni hefur æ síðan gert mér kleift að tileinka mér færni fljótt og vel. Illa vegna þess að mér gekk svo vel alltof snemma að ég fékk of mikið hrós fyrir ranga hluti. Fólk fór að segja við mig að ég væri svo klár í tungumálum, lestri, íslensku, sögu og þessum hefðbundnu kjaftafögum vegna þess að þar kom árangurinn fram. En við níu ára aldur var veikleikinn kominn í ljós. Ég hafði ekki í mér að læra stærðfræði. Sannaðist þar hið fornkveðna að fólk væri annað hvort raungreinafólk eða kjaftafagafólk. Ég var stimplaður hið síðarnefnda, ekki síst af mér sjálfum. Mér gekk ekkert sérstaklega vel í stærðfræði næstu tíu árin.

Samkvæmt Dweck er mjög algengt að börn sem ná árangri snemma hættir til að staðna. Þau fá svo mikið hrós að það fer að verða aðalmarkmiðið, að líta út fyrir að vera klár og snjöll og gera aldrei mistök. Að hrósa börnum með því að segja að þau hafi svo mikla hæfileika hefur slæm áhrif á innri áhugahvöt. Þau missa tenginguna milli orsakar (hvatning, dugnaður, vinnusemi) og afleiðingu (hrós, árangur, verðlaun).

Sem barn og unglingur hafði ég sjálfur fests í vítahring fastmótaðs hugarfars. Míns eigins og annarra sem höfðu ákveðið of snemma í hverju ég væri góður og í hverju ég væri slakur. Í stað þess að einbeita mér að orsökinni fyrir því að mér gekk vel fór ég að einblína á afleiðingarnar. Það var engum að að kenna. Þannig voru hlutirnir bara í litlum skóla úti á landi fyrir þrjátíu árum þar sem fólk reyndi sitt besta og enginn hafði heyrt um Carol Dweck. Þannig eru hlutirnir líka ennþá á alltof mörgum stöðum, á alltof mörgum sviðum. Hæfileikar fá ekki að mótast, að reyna sig áfram, að mistakast, að endurtaka nógu oft til að fara að njóta sín.

Það kom mér skemmtilega á óvart þegar ég fékk A í stærðfræði í háskóla í Bandaríkjunum. Ég hugsaði með mér að þessir Bandaríkjamenn væru nú bara með alltof létt nám fyrst einhver sem var svona vitlaus í stærðfræði eins og ég gæti náð árangri. Í þessari andrá vanmat ég námið, skólann, skólafélagana og síðast en ekki síst sjálfan mig. Nú skil ég að ég var staddur á öðru sviði, þar sem ég fékk annað hlutverk. Enginn í Tennessee vissi að ég væri þessi sem gæti ekki lært stærðfræði. Kennarar og nemendur sögðu að það að læra stærðfræði væri bæði auðvelt og skemmtilegt ef maður bara legði sig fram. Og þess vegna gat ég það loksins.

 

Bill Murray

Í kvikmyndinni Groundhog Day leikur Bill Murray veðurfréttamann með fastmótað hugarfar. Hann festist í bænum Puxnatawney í Pennsylvaníu og þarf að endurtaka sama daginn aftur og aftur þar til hann öðlast vaxtarmiðað hugarfar. Í fyrstu bregst hann illa við þegar hann uppgötvar að hann þarf að byrja hvern dag á því að hlusta á I got you babe með Sonny og Cher og endurtaka sömu rútínuna aftur og aftur. Hann leitar að sökudólgum, skemmir fyrir sjálfum sér og öðrum og endar á að gefast upp. Hann tekur líf sitt en vaknar alltaf næsta dag á sama stað.

Það er ekki fyrr en hann fer að sjá tækifæri í endurtekningunni að hlutirnir breytast. Hann nýtir tækifærið og lærir ýmsa færni á borð við að spila tónlist og skera út ísskúlptúra. Þegar hann loks öðlast samkennd fyrir öðrum og ró fyrir hversdagsleikanum heldur lífið áfram með nýjum tækifærum.

Sami bíllinn

Carol Dweck kallar fastmótað hugarfar “framkvæmdastjóraveikina” (CEO disease). Hún bendir á hinn goðsagnakennda Lee Iacocca sem stýrði Chrysler með mikilli velgengni á níunda áratugnum. Þegar toppinum var náð áttu Iacocca og fyrirtæki hans erfitt með að hugsa lengra. Í stað þess að vera í fararbroddi í breytingum á bílamarkaðinum hélt Chrysler áfram að gera það sem hafði gengið vel. Það framleiddi sömu bílana því það hafði jú gengið svo vel. Fyrirtækið og framkvæmdastjórinn stöðnuðu á meðan japanskir framleiðendur brunuðu framhjá. Markmiðið sem Iacocca setur Chrysler í auglýsingunni að ofan er dæmigert fyrir þá sem eru með fastmótað hugarfar. “Við ætlum að vera best. Hvað annað?”.

Vandinn er sá að það að vera bestur er teygjanlegt hugtak. Heimurinn breytist á ógnarhraða og það sem var best í gær er ekki endilega best í dag og hvað þá á morgun. Sagan er full af dæmum um fyrirtæki sem hafa misst leiðandi stöðu á markaði þegar tíminn hefur breytt skilgreiningunni á því hvað það væri að vera bestur í þeirra geira. Dweck bendir á að fastmótað hugarfar er áberandi í viðskiptalífinu, líklega vegna þess að fólk er oft ráðið í yfirmannastöður vegna þess sem það hefur gert en ekki vegna þess sem það gæti gert. Apple hélt til dæmis að John Scully myndi vera rétti aðilinn til að leiða fyrirtækið vegna þess að honum hafði gengið vel hjá Pepsico. Svo reyndist ekki vera.

Sömuleiðis ráða knattspyrnufélög oft fyrrverandi leikmenn til að vera þjálfarar vegna þess að þeim hafði gengið svo vel úti á vellinum. Jose Mourinho var gagnrýndur af Carlo Ancelotti fyrir að hafa ekki gert neitt sem leikmaður en svaraði fyrir sig með því að benda á að tannlæknirinn sinn væri sá besti í London þrátt fyrir að hafa aldrei fengið tannpínu. Simon Kuper og Stefan Szymanski segja í Soccernomics að helsti vandi knattspyrnumanna þegar þeir verða þjálfarar er einmitt sá að þeir vita nákvæmlega hvernig á að gera allt. Eðli þjálfunar sé hins vegar að vera sífellt að efast um víðteknar venjur og spyrja hvort hægt sé að gera betur. Þetta þýðir ekki að góðir knattspyrnumenn geti ekki orðið góðir þjálfarar, en þeir þurfa að temja sér hugarfar þjálfarans til að ná árangri. Alex Ferguson var til dæmis mun betri þjálfari en leikmaður á meðan Roberto Mancini var mun betri leikmaður en þjálfari. Hann mun hins vegar alltaf fá atvinnuviðtöl einfaldlega útaf því að hann er Roberto Mancini. Frábærir þjálfarar eins og Mourinho, Benitez og Villa Boas verða hins vegar að vonast til að fá tækifæri til að sanna sig og grípa það með báðum höndum þegar það gefst.

Að rækta garðinn sinn

Jim Collins hefur skrifað mjög áhugaverðar bækur á borð við Good to Great og Built to Last sem kallast á við kenningar Carol Dweck. Þar gefur hann eins og Simon Kuper og Stefan Szymanski í Soccernomics lítið fyrir áráttu fólks til að líta á persónutöfra sem leiðtogahæfni. Í staðinn bendir hann á að góðir leiðtogar hafi yfirleitt brennandi áhuga og þekkingu á viðfangsefni sínu og því að ýta upp fólki í kringum sig. Þeir rækta garðinn sinn í stað þess að reisa sér minnisvarða. Vandinn við það hvernig fyrirtæki, og sérstaklega þau stærstu velja sér starfsfólk og yfirmenn er að það er oftast byggt á því sem fólk er búið að gera. Þannig er fólk líka valið inn í menntaskóla og háskóla, af því að það hefur náð árangri í prófum og skilgreindum námsgreinum. Þannig byrjar fastmótun hugarfars mjög snemma í til dæmis Bretlandi þegar foreldrar gera sér grein fyrir því að maður kemst ekki í rétta háskólann nema að hafa verið í rétta grunnskólanum sem maður kemst ekki í nema að hafa verið í rétta leikskólanum. Slíkir foreldar eru nefndir CV-builders, þeir eru alltaf að byggja upp ferilskrá barnanna sinna. Á Íslandi sést þetta best þegar hið árlega harmakvein nýnema sem komst ekki inn í MR eða Versló byrjar að heyrast í fjölmiðlum. Sextán ára unglingar upplifa lokuð sund í lífi sínu vegna þess að þau komast ekki inn í þessa skóla. Það er óþarfi, einn besti borgarstjóri í heimi komst ekki inn á meðan sumir af slökustu bankamönnum samtímans fengu inngöngu. Það var ekki valið eftir því hvað fólk gæti mögulega gert í framtíðinni.

gnarr

Bestur?

Er Jón Gnarr einn besti borgarstjóri í heimi? Það veit enginn þar sem borgarstjóra-indexið er líklegast ekki til og væri svo væri erfitt að mæla árangur í Reykjavík miðað við La Paz, Róm og Lahore. Það er hinsvegar hægt að halda því fram með góðri samvisku að Jón Gnarr er besti borgarstjóri sem hann gæti orðið á sínum stað og sínum tíma. Hann hefur brennandi áhuga á borginni sinni og velferð hennar umfram eigin metorð. Þetta skilja margir pólitískir andstæðingar hans illa því vegferð þeirra hefur gengið út á að klífa metorðastiga. Það sem skiptir máli þegar fólk og hópar setja sér markmið, að vera eins góður og maður sjálfur getur orðið. Ef það tekst mun árangurinn ekki láta á sér standa og úrslitin fara að sjá um sig sjálf.

Næst: Hugarfar III – Vaxtarmiðað hugarfar

One thought on “Hugarfar II – Fastmótað hugarfar

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s