Hugarfar I – Þegar hæfileikar fá að njóta sín

Garfield menntaskólinn í Los Angeles var einn af verstu skólum borgarinnar á áttunda áratug síðustu aldar. Hann var staðsettur í rómönsku (latino) fátækrarhverfi þar sem margir nemendanna bjuggu við daprar aðstæður, voru ólæsir og áttu sér litla von um að ganga menntaveginn. Það kom því mörgum á óvart þegar þessir sömu nemendur voru allt í einu komnir á sama stall og jafnaldrar þeirra úr úrvals menntastofnunum frá efnuðustu svæðum austurstrandar Bandaríkjanna í stærðfræðigreiningu (calculus) fyrir lengra komna.

Kennararnir Jamie Escalante og Benjamin Jimenez breyttu ríkjandi hugarfari meðal nemenda og kennara skólans. Í stað þess að fallast hendur og samþykkja án athugasemda að nemendur Garfield menntaskólans væru einfaldlega heimskari eða lakari en aðrir veltu þeir fyrir sér hvernig en ekki hvort þau gætu lært stærðfræði.

Sögu Escalante voru gerð góð skil í kvikmyndinn Stand and Deliver þar sem Edward James Olmos fór með aðalhlutverkið. Fjöldi nemenda úr Garfield menntaskólanum sem gat náð í einingar á háskólastigi í stærðfræði var svo úr skjön við árangur annarra rómanskra nemenda í Bandaríkjunum að það var aðeins hægt að draga eina ályktun út frá tölunum.

Það var verið að sóa möguleikum alltof margra á að ná árangri. Hæfileikar rómanskra unglinga fengu ekki að njóta sín.

Carol Dweck

Fyrir skömmu hélt Ólafur Kristjánsson tölu fyrir starfsfólk knattspyrnudeildar Breiðabliks. Hann útlistaði hvaða atriðum hann væri að leita eftir þegar hann ætti að meta unga leikmenn. Efst á blaði var hugarfar. Ekki hæfileikar, ekki tæknileg geta, ekki líkamlegir burðir, heldur hugarfar.

Ef knattspyrnumenn eða konur eru komnir það langt að hægt er að bjóða þeim á æfingar með meistaraflokki Breiðabliks er hugarfar líklega sá þáttur sem mun skilja mest á milli. Það má til dæmis sjá á leikmönnum eins og Andra Yeoman, Sverri Inga Ingasyni og Árna Vilhjálmssyni sem hafa tekið mikið framfaraskref úr yngri flokkum upp í meistaraflokk undir leiðsögn þjálfarateymis meistaraflokks og eldri leikmanna liðsins. Þessir leikmenn, eins og fjöldi annarra sem hafa klæðst grænu treyjunni undanfarin ár hafa náð að vaxa eftir að á toppinn var komið í sínu félagi. Vonandi halda þeir áfram á sömu braut, ungir og efnlegir menn sem eru enn við dyragættina á fullorðinsferlinum. Sem yngri flokka þjálfari hef ég sjálfur lagt æ meiri áherslu á hugarfarsþjálfun, í svo miklum mæli að þrettán ára leikmenn mínir eru jafnvel farnir að skóla mig til þegar ég gleymi mér. Um daginn lét ég í mér heyra á æfingu þegar leikmenn voru ekki vissir um stöðuna í leik sem var í gangi. Ég fékk framan í mig að ég væri alltaf að segja að það væri frammistaðan sem skipti öllu máli og réttilega var frammistaðan til fyrirmyndar þegar þarna kom við sögu.

Hænan og eggið og allt það.

Hafir þú áhuga á hlutum á borð við þjálfun, árangri, markmiðasetningu, uppeldi eða sjálfshjálp er vert að hafa augastað á bandarískri konu að nafni Carol Dweck. Rannsóknir hennar við Stanford, Harvard, Columbia og University of Illinois hafa getið af sér bókina MindSet og vefsíður á borð við MindsetWorks. Ég á tvo góða vini sem bentu mér á hana þegar ég spurði þá hvað væri mikilvægasta vopnið í vopnabúrinu þeirra. Annar er íþróttasálfræðingur við IMG Academy í Flórída og hinn vinnur við viðamestu sálfræðirannsókn sem hefur verið gerð innan bandaríska hersins. Þeir sögðu báðir að hugmyndir hennar væru víða á floti og margir væru að vinna eftir þeim meðvitað og ómeðvitað eða að setja fram svipaðar kenningar, eins og Angela Duckworth (Grit), Malcolm Gladwell (Outliers), Daniel Coyle (The Talent Code) og Matthew Syed (Bounce). Carol Dweck hefði hinsvegar nálgast þær akademískt og fengið út niðurstöður sem næðu að binda þær saman.

Kenningar Dweck breyta ekki aðeins nálgun íþróttafólks og þjálfara heldur geta þær gefið víðari sýn á marga hluti. Næstu daga mun ég setja inn nokkra pistla um kenningar hennar og hvernig þær eru byrjaðar að breyta hugarfari í íþróttum og kennslu. Þær gætu jafnframt breytt hugarfari í viðskiptalífinu og stjórnmálum (alveg róleg samt). Dweck segir þær jafnframt gagnast við sambandsráðgjöf en skal ekki nánar fullyrt um það hér.

Grunnurinn að kenningum Dweck snúast um það að einstaklingar hafi eða velja sér annað hvort fastmótað eða vaxtarmiðað hugarfar. Það geti haft mikil áhrif á árangur þeirra í leik og starfi, lífsfyllingu og hamingju.

Fastmótað hugarfar – Fixed Mindset

Sumt fólk hefur fastmótaðar hugmyndir um hvað það getur og getur ekki. Það trúir því að hæfni sé meðfædd og takmörkuð auðlind. Þetta fólk er líklegast til að segja að sumir séu bara stærðfræðiheilar og aðrir ekki, og að einhverjir hafi fæðst með töfra í tánum sem geri þeim kleift að sóla alla upp úr skónum í fótbolta. Það sækir síður í krefjandi verkefni og reynir frekar að vera sem mest í þægindahringnum sínum þar sem því gengur vel. Fólk með fastmótað hugarfar sækir í verðlaun og viðurkenningar annarra til að svala metnaði sínum. Það þakkar meðfæddum eiginleikum sínum og æðri mætti fyrir góðan árangur og á það til að telja sig vera betri en aðrir vegna þeirra. Það kennir líka öðrum um ófarir sínar frekar en aðrir og forðast að gera mistök eins og heitan eldinn.

Gott dæmi um einstakling með fastmótað hugarfar er tennisstjarnan John McEnroe sem var bestur í heimi í fjögur ár en uppgötvaði eftir að ferlinum lauk að hann hefði aldrei notið þess sem hann afrekaði og að hann hefði líklega getað orðið ennþá betri með öðruvísi hugarfari. Í myndbandinu að ofan hagar hann sér eins og illa upp alinn óknyttastrákur þegar hlutirnir ganga ekki upp.

Vaxtarmiðað hugarfar – Growth Mindset

Hér trúir fólk því að hæfni sé hvorki meðfædd né takmörkuð auðlind heldur sé hún áunnin með þrautseigju og vinnusemi. Þetta fólk er líklegt til að vera lausnamiðað og sækja í verkefni sem ögra þeim. Fólk með vaxtarmiðað hugarfar fær ánægju úr ferlinu sem það er að vinna í, úr æfingum eins og leikjum og fyrir þeim eru úrslit, verðlaun og viðurkenningar afleiðing. Þegar það nær góðum árangri bendir það á að það hafi haft mikið fyrir árangrinum og þakkar oft fólki í kringum sig fyrir að styðja sig. Það leitar inn á við þegar illa gengur í stað þess að benda á aðra.

Gott dæmi um einstakling með vaxtarmiðað hugarfar er Michael Jordan sem hefur ætíð minnt aðdáendur sína á það hversu mikla vinnu hann lagði á sig til að verða góður í körfubolta. Í þessari auglýsingu gerir hann mistökin sín að styrkleika, alveg eins og Marco Van Basten sem sagði einu sinni að hann væri bestur vegna þess að hann hefði gert fleiri mistök heldur en allir aðrir.

Næst: Nánar um fastmótað hugarfar

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s