Hvenær má keppa til sigurs?

Image

Hvenær á maður að kenna börnum að keppa til sigurs í leik? Svarið er alltaf.

Tilgangur leikja er að sigra mótherjann. Sjö ára börn í knattspyrnuleik eiga að reyna að vinna. Það væri alveg fáránlegt að setjast niður í skák eða lúdó og reyna ekki að sigra. Lið eiga alltaf að reyna að sigra. Annars gætu þau sleppt því að koma til leiks.

En í grunninn er þetta ekki svo einfalt. Í raun er þetta mjög flókið og keppnishugtakið þvælist fyrir íþróttafólki um allan heim.

Það er talinn kostur að vera tapsár í íþróttum. Sagðar eru hryllingssögur af nöfnunum Michael Jordan og Owen sem gátu ekki sest niður í spil með félögunum án þess að gera allt vitlaust. Vinir þeirra og fjölskyldur telja þetta vera stærsta gallann þeirra, að þeir tóku ósigri illa. En að einhverju leiti hefur þessi eiginleiki átt þátt í að koma þeim á hæsta stall sinnar greinar. Um afrek Jordan þarf ekki að fjölyrða og þrátt fyrir að meiðsli hafi sett strik í reikninginn hjá Owen er hann eini breski leikmaðurinn sem hefur verið valinn knattspyrnumaður Evrópu á þessari öld.

En sigur er ekki sigur, sama hvernig hann er unninn.

Þetta er ekki hægt að endurtaka nógu oft; Íþróttir barna eru ekki smækkuð mynd af íþróttum fullorðinna. Ef verkefnið er ekki við hæfi er sigur lítill mælikvarði á getu og hæfni. Og að auka hæfni er það sem er íþróttir barna og unglinga eiga að ganga út á.

Til að setja hlutina í samhengi þá væri það skrýtinn pabbi sem færi að birta myndir af sér sigrihrósandi á Facebook eftir að hafa sigrað tíu ára dóttur sína í skák. Skákin milli feðginanna ætti að ganga út á að sá eldri væri að kenna þeirri yngri færni til að verða betri. Ef hann myndi spila til sigurs í hverjum leik væri stutt í að dóttirin myndi hætta leik og halda sig frá skák í framtíðinni. Hún myndi missa áhuga og án áhuga er ekki líklegt að hún öðlist færni.

Þetta er öfgafullt dæmi og vonandi er þessi pabbi ekki til. En komdu á N1 mótið næsta sumar og athugaðu hvort þú sjáir „yngra árs A lið“ sigra C liða keppnina. Líttu við á Símamótinu og sjáðu leikmenn úr A liði 6. flokks hlaupa yfir á næsta völl til að koma C liði 5. flokks í úrslitin. Kíktu á riðlaskiptingu KSÍ móta og sjáðu muninn á milli efstu og neðstu liðanna. Erfiðasta verk þjálfara er að finna verkefni við hæfi fyrir lið sín.

Í vor sendi KSÍ út tilmæli til þjálfara um að ekki væri æskilegt að senda A lið til keppni C liða fyrir ofan. Hvers vegna skildi það vera? Fyrir nokkrum árum komst 5. flokks C lið sem var dæmigert C lið að getu inn í úrslitakeppni sér að óvöru þar sem það hafði ekki lent í efstu tveimur sætunum. Þar vann það riðilinn sinn með litlum mun og var loks komið í undanúrslit. Drengjum sem þurftu á auknu sjálfstrausti að halda var svo snarlega kippt niður á jörðina þegar A lið 6. flokks annars félags tók þá í bakaríið og fór alla leið og tryggði sér titilinn. Í stað þess að fagna góðum árangri var lærdómurinn sem þeir drógu sjálfir af þessu að þeir hefðu tapað fyrir yngri börnum. Sjálfstraustið beið verulegan hnekki.

Misþroski

Vandinn við samanburð í keppni barna og unglinga felst ekki síst í því hversu misþroska mótherjar geta verið. Í fjórða flokki eru nú krakkar að keppa sem eru fædd 1. janúar 2000 og 31. desember 2001. Innan þessa mengis geta verið krakkar sem eru komnir yfir 1.80m á hæð og aðrir sem hafa ekki náð 1.60m. Enn erfiðara er að greina andlegan þroskamun. Eitt erfiðasta verkefni þjálfara er að reyna að greina á milli þess hvort yfirburðir barna og unglinga felist í þroska eða hæfni. Þjálfarar verða að reyna að sjá inn í framtíðina og leita leiða til að gefa leikmönnum sínum verkefni við hæfi. Hjá bestu unglingaakademíu á Englandi, Southampton hafa menn farið ólíkar leiðir eftir einstaklingum. Theo Walcott spilaði upp fyrir sig en Alex Oxlade-Chamberlain spilaði með yngri leikmönnum, sem sagt flokki niður fyrir sig. Á meðan bönnum við á Íslandi krökkum sem vilja vera í marki í A liði í 5. flokki að keppa úti með A2 eða B liði. Bestu markmenn í heimi eru flestir þrusugóðir úti. Við drögum úr möguleikanum á því að búa til betri knattspyrnumenn vegna ótta þjálfara við að tapa leikjum.

Verkefni við hæfi 

Ákveðinn hugsunarháttur lifir enn góðu lífi í íslenskum íþróttaheimi. Berjast strákar berjast. Drepa, éta, hreykja sér. Aðspurður sagði þjálfari sem var að svara því af hverju D lið félagsins væru svona ógnarsterk að það væri svo gaman fyrir leikmennina að skora mikið af mörkum og vinna. Það væri svo hvetjandi. Hér var mótherjinn ekki hugsaður sem andstæðingur, heldur sem bráð.

En þetta er að breytast. Þjálfarar eru farnir í auknum mæli að segja hugsa strákar hugsa í staðinn. Leggja á sig, öðlast hæfni, framkvæma og uppskera. Enda eykst færni íslenskra knattspyrnumanna kynslóð frá kynslóð. Enn eimir af gamaldags hugsunarhætti í íþróttaheiminum. Þeir tala um aumingjavæðingu og að þeim sjálfum hafi ekki orðið meint af allskonar ófögnuði á árum áður. Það þýðir ekki að það þurfi að elta ófögnuðinn ef betri leiðir eru í boði.

Betri leiðir

Handboltinn er með fyrirkomulag í yngri flokkum sem væri áhugavert að sjá í auknum mæli í knattspyrnu. Lið spila túrneringar og vinna sig upp og niður á milli túrnerninga. Þannig fær maður léttari keppni næst ef sú síðasta var of erfið og öfugt. Þetta er gott því það gefur leikmönnum færi á að öðlast fjölbreytta færni. Vísir af þessu er nú á Shell-mótinu í Eyjum og á Símamóti Breiðabliks. Þar hefur þetta fyrirkomulag verið þróað þannig að í sumar hafði ójöfnum leikjum verið fækkað til mikilla muna. Og ánægja þjálfara og foreldra hefur aukist sömuleiðis þótt enn eigi eftir að finna bestu leiðina til að útkljá leiki. Í svona móti getur Valur 2 endað gegn Breiðablik 5 og HK 2 gegn Breiðabliki 8 síðasta daginn í staðinn fyrir að þurfa að eiga við Breiðablik 2 og FH 2 eins og í Íslandsmótinu. Í Íslandsmótum yngri flokka er enn haldið í ABCD fyrirkomulag sem forsvarsmenn minni félaga segja að sé að drepa niður áhuga. Við hljótum að geta gert betur.

Í gamla Símamótinu lenti Breiðablik 1 einu sinni í riðli með liði af landsbyggðinni sem var með tvö lið. Breiðablik var með 80 iðkendur en mótherjarnir 18. Breiðablik 1 sigraði að lokum mótið. Eftir fjórar mínútur var ljóst að stefndi í mikið óefni og þjálfarinn fékk tækifæri til að ræða við leikmenn sína. Tólf ára leikmenn eiga erfitt með að skilja af hverju þeir mega ekki bara klára leikinn eins og þeim sýnist en þegar búið var að útskýra fyrir þeim voru þeir með á nótunum. Allt kapp var lagt á að skora mark þar sem allir leikmenn liðsins kæmu við boltann í sömu sókn. Fyrir áhorfendum breyttist leikurinn í farsa, fyrir Breiðabliki í æfingu og mótherjarnir fengu jafn lítið út úr honum og áður en skorinu var þó haldið í skefjum. Þegar takmarkinu var náð fögnuðu leikmenn Breiðabliks loksins. Þeir höfðu fengið verkefni við hæfi til að keppa að og fengu eitthvað út úr leiknum. Allir aðrir horfðu á þá eins og þær væru stórskrýtnar. Skömmu síðar var skundað á næsta völl þar sem Valur 1 varð að fara svipað að með Breiðablik 4. Eins og á við marga aðra leiki í keppni barna og unglinga hefði verið betra ef þessar uppákomur hefðu aldrei átt sér stað.

Fleiri betri 

Ef börn og unglingar fá keppni við hæfi, þar sem þau snerta boltann oft, eru að keppa jafna leiki og fá bæði að reyna að sigra og tapa er líklegra að þau þroski með sér hæfni sem gerir þau að betri leikmönnum þegar þau verða eldri.

Þegar fjölmenn félög senda fleiri en eitt A lið til keppni eru þau að reyna að auka við hæfni allra leikmanna sinna, sama hvar þeir eru staddir í ferlinu á þeirri stundu. Ef „B“ liðið fer upp þýðir það að „C“ liðið þarf líka að fara upp og svo framvegis. Allir fá erfiðari en jafnframt meira krefjandi keppni. Fórnarkostnaðurinn gæti verið einn og einn bikar hér og þar en fleiri verða betri í sinni grein. Um það eru sterkar vísbendingar þar sem þannig hefur verið haldið á spöðunum. Ef fámennt félag hefur ekki burði í að keppa í A liða keppni gæti íþróttin einnig verið að missa af fjölda leikmanna sem hætta en hefðu getað fengið tækifæri í viðeigandi keppni til að þroska hæfileika sína og ná árangri seinna meir.

Krakkar eiga alltaf að keppa til sigurs. Í skák við pabba, hlaupum við mömmu, fótbolta með félaginu sínu og í körfubolta við frænda.

Margt bendir til að mikið framboð af keppni hafi ýmis jákvæð áhrif á íslenkt knattspyrnufólk þegar það er að alast upp. En eitt er allavegana á hreinu. Alvöru keppnismenn fagna ekki innantómum sigrum.

Hugarfar III – Vaxtarmiðað hugarfar

Enginn íslenskur knattspyrnumaður hefur náð jafn langt og Eiður Smári Guðjohnsen. Að vera lykilmaður í fyrsta Chelsea liði Mourinho og í hópi Barcelona undir Guardiola er nokkuð sem fáir leika eftir á ferlinum, sama hvaðan þeir koma.

Eiði hefur gengið vel með íslenska landsliðinu undanfarið og var spurður að því eftir leikina gegn Kýpur og Noregi af hverju hann væri ekki fastamaður í félagsliði sínu, Club Brugge. Hann svaraði því til að þjálfarinn hefði greinilega ekki nægilega trú á sér. „Er það þá ekki mitt að breyta því?“

Eiður hafði svarað á svipaðan hátt þegar Auðunn Blöndal heimsótti hann fyrir El Clasico leik í Barcelona fyrir nokkrum árum. Hvað myndi hann hugsa ef hann kæmist að því að hann væri ekki í liðinu gegn Real Madrid? Í fyrstu myndi hann vera svekktur, „en svo fer ég að undirbúa mig undir að koma inná og skora sigurmarkið“.

Ef maður sem hefur spilað með Henry, Ronaldinho, Messi, Lampard, Terry, Robben, Iniesta og Xavi hugsar svona, hvernig takast þá aðrir knattspyrnumenn á við það að vera ekki valdir í liðið sitt? Með því að hætta, skipta um félag, kenna öðrum um? Eða einfaldlega gera betur og bíða tækifærisins? Vera svo tilbúinn þegar það kemur?

gsg

Að líta í eigin barm

Grétar Sigfinnur Sigurðsson fékk þau skilaboð frá KR síðasta vetur að hann mætti leita sér að öðru liði. Hann væri ekki í plönum þjálfarans. Í stað þess að gefast upp sneri hann slæmri stöðu sér í vil og spilaði alla leiki sumarsins fyrir Íslandsmeistarana. Í samtali við Morgunblaðið sagði Grétar;

„Jú jú, þeir ætluðu bara að losa sig við mig. Þegar maður lendir í svona aðstæðum þá þarf maður stundum að líta í eigin barm í stað þess að kenna öðrum um. Þrátt fyrir að manni finnist eitthvað ósanngjarnt þá er það ekki alltaf öðrum að kenna. Ég hugsaði út í það hvort ég hlyti ekki að vera að gera eitthvað rangt og kom mér í betra form en ég hafði verið í. Ég lagði harðar að mér og hugsaði betur um matarræðið. Ég ætlaði mér að sýna að ég ætti heima í KR-liðinu og gerði það. Ég var því gríðarlega ánægður með það. Ég er uppalinn KR-ingur og þetta er sá staður sem ég vill vera á. Hjartað er hérna og ég get ekki verið sáttari eftir að hafa lent í þessu mótlæti í vetur. Vonandi hef ég sett fordæmi fyrir aðra því svona lagað gerist á hverju tímabili hjá flestum liðum. Menn þurfa ekki alltaf að hlaupa í burtu heldur geta menn einnig hugsað sinn gang og gert betur.“

Vaxtarmiðað hugarfar

Eiður og Grétar eiga það sameiginlegt að hafa sýnt vaxtarmiðað hugarfar þegar þeir mættu mótlæti. Báðir hafa náð að snúa erfiðri stöðu sér í vil. Eiður með landsliðinu á meðan félagsliðið getur ekki nýtt sér krafta hans og Grétar með félagsliðinu sem taldi sig ekki þurfa á honum að halda. Þeir héldu áfram og létu ekki bugast.

Þetta þýðir ekki að allir gætu farið sömu leið eða að þeir séu alltaf með vaxtarmiðað hugarfar gagnvart öllum hlutum. Stundum er fullreynt eins og Eiður hefur upplifað hjá mörgum félögum á sínum ferli. En hann heldur áfram. Gefst ekki upp. Hann hefur líklegast náð að vera eins góður og hann gat orðið. Alveg eins og Grétar Sigfinnur. Þótt hann hafi ekki náð jafn langt og Eiður hefur hann eftir sem áður átt glæstan feril. Hann hefur náð miklu út úr því sem hann hefur að spila úr.

Carol Dweck útskýrir vaxtarmiðað hugarfar á eftirfarandi hátt;

Fólk með vaxtarmiðað hugarfar er ólíkt þeim sem eru með fastmótað hugarfar. Þeir síðarnefndu einbeita sér að því sem hefur gengið vel og forðast nýjar aðferðir og áskoranir sem gætu mistekist. Aftur á móti vilja þeir sem trúa á vaxtarmiðað hugarfar ögra sjálfum sér til að verða betri, jafnvel þótt það þýði að þeim mistakist á leiðinni.

Dweck tók þátt í að gera rannsókn þar sem skoðað var hvernig hugarfar hefur áhrif á einkunnir nemenda í stærðfræði. Eins og búist var við stöðnuðu þeir sem höfðu verið greindir með fastmótað hugarfar á tveggja ára tímabili, á meðan þeir sem voru með vaxtarmiðað hugarfar tóku framúr þeim.

Þá var sett í gang átta vikna verkefni sem átti að kenna nemendunum nýja námstækni og hvernig þeir gætu lært að verða betri í stærðfræði. Heilanum var lýst sem vöðva sem yrði sterkari því meira sem honum væri beitt. Viðmiðshópur fékk að læra námstæknina en ekki lýsinguna á heilanum sem vöðva. Á tveimur mánuðum sýndi fyrrnefndi hópurinn marktækan mun hvað varðar bætingu og námstækni miðað við þann seinni.

Dweck sagði að það skipti máli hvernig hvatningu nemendurnir fengu. „Þeir fengu aukinn kraft úr þeirri hugmynd að þeir gætu sjálfir haft áhrif á heilann“. Ungur vandræðagemsi tók sérstaklega vel við sér þegar hann uppgötvaði að hann þyrfti ekki að vera heimskur. Allt í einu gat hann haft sjálfur áhrif á það hvaða hlutverk hann fengi í lífinu.

Það er bæði hægt að velja sér hugarfar og að móta það. Líka þegar það virðist vera erfitt. Carol Dweck útskýrir í myndbandinu hér að neðan hvernig hægt er að breyta hegðun hjá ofbeldishneigðum nemendum með vaxtarmiðuðum aðferðum.

Að rækta garðinn sinn 

Fólk með vaxarmiðað hugarfar trúir því ekki að allir séu jafnir eða geti orðið næsti Albert Einstein. Það trúir því hins vegar að allir geti haft áhrif á eigin frammistöðu og bætt við sig hæfni.

Það er  einfaldlega ekki nóg að ákveða að maður ætli að spila í Meistaradeildinni eins og Eiður Smári og eyða svo þremur klukkutímum á dag í fótbolta. Hlutir eins og umhverfi, aðstaða, markviss þjálfun, stuðningur foreldra, tækifæri og gen skipta miklu máli. Jafnvel þótt allt virðist fyrir hendi geta svo hlutir sem maður hefur ekki stjórn á ákvarðað hvort maður komist alla leið eða ekki. Pepe Reina væri líklega búinn að spila 100 landsleiki fyrir Spán ef hann væri ekki uppi á sama tíma og Iker Casillas. Victor Valdez og David De Gea vita það að sama hversu mikið þeir æfa sig þá má Del Bosque bara velja einn markmann í liðið. Árangur Spánar undanfarin ár er ekki síst tilkominn vegna frábærs liðsanda. Pepe Reina spilaði ekki mínútu í Suður Afríku árið 2010 en það er ekki að sjá á myndbandinu að ofan að hann hafi verið að svekkja sig mikið á því. Í staðinn tók hann þá ákvörðun að rækta garðinn sinn og uppskeran var blómleg með meiru.

Sterk heild betri en sterk stjarna

Viðhorf varamarkvarðarins Pepe Reina gerir landslið Spánar sterkara. Nýlegar rannsóknir í knattspyrnu benda til þess að það er mikilvægara að veikasti hlekkurinn í liðinu þínu sé sterkur heldur en að sterkasti hlekkurinn sé afburðarleikmaður. Lið á borð við Lyon, Dortmund og Porto vinna eftir þessu með góðum árangri. Ef veikasti hlekkurinn í KR er Grétar Sigfinnur (að því leiti að hann mátti fara frá félaginu), þá er liðið í góðum málum. Viðhorf Gunnleifs Gunnleifssonar og Alfreðs Finnbogasonar gagnvart því að sitja á bekknum hjá Lars Lagerback hefur eflt íslenska landsliðið svo um munar. Gunnleifur hringir í yfirþjálfara Breiðabliks til að biðja um æfingatíma í Fífunni fyrir KR-inginn Hannes Halldórsson og Framarann Ögmund Kristinsson á meðan beðið er eftir landsleiknum við Króata. Þótt þeir vilji allir standa milli stanganna 15. nóvember eru þessir leikmenn ekki keppinautar heldur liðsfélagar sem græða allir að lokum. Alfreð sem er markahæstur í Hollandi og dauðlangar að spila segir í viðtali við 433.is að bestu svörin eru alltaf á fótboltavellinum.

Dweck hefur kallað fastmótað hugarfar „framkvæmdastjóraveikina“ eins og fram kom í síðasta pistli. En hún bendir líka á leiðtoga úr atvinnulífinu sem hafa náð árangri með vaxtarmiðað hugarfar. Bestu lögreglustjórarnir virðast til dæmis vera þeir sem hvetja hópinn sinn reglulega til dáða. John F. Welch hjá General Electric hefur sett liðsheildina framar einstaklingshyggju í sínu fyrirtæki. Louis V. Gerstner hjá IBM þakkaði starfsfólki sínu fyrir að hafa náð að snúa við gengi fyrirtækisins í bók sinni í stað þess að eigna sér heiðurinn eins og oft vill verða í slíkum ritum. Þegar Anne M. Mulcahy hjá Xerox varð að beita niðurskurðarhnífnum gekk hún til verks við að ýta undir endurmenntun og ánægju þeirra sem voru eftir.

Ljóst er að viðhorf til mannauðsstjórnunnar hafa breyst eins og viðhorf til íþróttaþjálfunar barna. Á báðum sviðum var lengi vel leitað að „stjörnum“, sjarmerandi fólki sem virtist hafa meðfædda hæfileika og hreif fólk með sér.

Hæfni + hugarfar 

Billy Beane og bókin Moneyball áttu mikinn þátt í að breyta hugarfari þeirra sem leita að ungu hæfileikafólki í íþróttum. Íslenskur knattspyrnumaður átti einu sinni að hafa krækt sér í stóran samning út á það hversu vel klæddur og sjálfsöruggur hann var þegar hann hitti þjálfarann. Nú eru menn sendir út af örkinni með það að leiðarljósi að velja ekki markmenn bara út af því að þeir líta út eins og markmenn ættu að gera (stórir, sjálfsöruggir, öskrandi) heldur út af áþreifanlegri viðmiðum (persónuleika, getu til að stýra vörn, hæfni í fótum). Markmenn bestu liðanna í ensku úrvalsdeildinni fá að meðaltali 2-3 skot á mark sitt í hverjum leik. Getan til að vinna með og stýra vörninni til að fækka skotum á markið er mikilvægari heldur en að geta hoppað upp í skeytin. Ef menn geta gert bæði á að kaupa þá á staðnum.

Vert er að taka fram að það er ekki nóg að hafa gott hugarfar heldur verður einnig að fylgja hæfni ef maður ætlar að ná afburðarárangri. Það bendir Dweck sjálf á og segir að sjálfsögðu verði fólk að leita eftir báðum eiginleikum hvort sem það sé við að velja í íþróttalið eða ráða starfsmenn. Bæði Linford Christie og Usain Bolt hafa reynt fyrir sér í knattspyrnu og Michael Jordan ákvað einu sinni að verða miðlungsgóður hafnaboltamaður. Það sem þeir höfðu hugarfarslega skorti þá í hæfni. Og að þróa með sér hæfni er enn erfiðara og flóknara en að velja sér hugarfar.

Næst: Hugarfar IV – Innri áhugahvöt

Hugarfar II – Fastmótað hugarfar

Eftir að hafa kynnst Carol Dweck og kenningum hennar um hugarfar, fer fólk óhjákvæmilega að velta fyrir sér hvort það sé sjálft með fastmótað eða vaxtarmiðað hugarfar. Svarið er ekki einfalt. Við getum verið með bæði. 

Eins og með allar kenningar skyldi maður fara varlega með að ofálykta og hafa ofurtrú á kenningum Dweck. Þær geta reynst gagnlegar sem tól til að skilja flókna hluti eða sem hluta af aðferðarfræði til að nálgast þá. Ég reyni að vera vaxtarmiðaður sem knattspyrnuþjálfari, stundum tekst það og stundum ekki. En þegar kemur að búðarferðum í IKEA eða að því að setja saman sænsk fjöldaframleiðsluhúsgögn lokast mér öll sund og ég sekk í mýri fastmótaðs hugarfars eins og Max Koch hér að ofan.

Dweck útskýrir fastmótað hugarfar á eftirfarandi hátt;

„Nemendur með fastmótað hugarfar trúa því að grunnhæfni þeirra, gáfur og hæfileikar eru takmarkaðar auðlindir. Þau hafi bara ákveðið magn til að spila úr og geti ekki aukið við það. Þá verður markmið þeirra að reyna alltaf að líta út fyrir að vera klár og aldrei hafa rangt fyrir sér“.

Fastmótað hugarfar – Fixed mindset

Ég var læs á tveimur tungumálum þegar ég kom í grunnskóla sex ára gamall. Ég átti foreldra og ömmu og afa sem lásu mikið fyrir mig sem hjálpaði mér að læra snemma að lesa íslensku. Í fornöld níunda áratugarins var Andrés Önd ekki gefin út á íslensku og fékkst bara á dönsku. Þar sem þau höfðu ekki alltaf tíma til að lesa fyrir mig kenndi ég mér sjálfur að lesa dönsku líka. Það var ekki auðvelt í fyrstu. Ég man meira að segja óljóst eftir því að vera sífellt að spyrja hvað þetta og hitt þýddi. En svo kom þetta og vegna þessa voru fyrstu ár mín í grunnskóla allt of auðveld. Sjö ára var ég búinn að bæta við þriðja tungumálinu, ensku. Síðan þá hef ég ekki lært nýtt tungumál.

Sem barn hafði ég sýnt mikla eiginleika vaxtarmiðaðs hugarfars sem lýsti sér í dugnaði og endurtekningu gagnvart hverju sem ég hafði áhuga á en kom fyrst augljóslega fram sem árangur í lestri og tungumálum. Þetta átti eftir að koma sér bæði vel og illa þegar leið á skólaferilinn. Vel vegna þess að snemmlærð grunnfærni hefur æ síðan gert mér kleift að tileinka mér færni fljótt og vel. Illa vegna þess að mér gekk svo vel alltof snemma að ég fékk of mikið hrós fyrir ranga hluti. Fólk fór að segja við mig að ég væri svo klár í tungumálum, lestri, íslensku, sögu og þessum hefðbundnu kjaftafögum vegna þess að þar kom árangurinn fram. En við níu ára aldur var veikleikinn kominn í ljós. Ég hafði ekki í mér að læra stærðfræði. Sannaðist þar hið fornkveðna að fólk væri annað hvort raungreinafólk eða kjaftafagafólk. Ég var stimplaður hið síðarnefnda, ekki síst af mér sjálfum. Mér gekk ekkert sérstaklega vel í stærðfræði næstu tíu árin.

Samkvæmt Dweck er mjög algengt að börn sem ná árangri snemma hættir til að staðna. Þau fá svo mikið hrós að það fer að verða aðalmarkmiðið, að líta út fyrir að vera klár og snjöll og gera aldrei mistök. Að hrósa börnum með því að segja að þau hafi svo mikla hæfileika hefur slæm áhrif á innri áhugahvöt. Þau missa tenginguna milli orsakar (hvatning, dugnaður, vinnusemi) og afleiðingu (hrós, árangur, verðlaun).

Sem barn og unglingur hafði ég sjálfur fests í vítahring fastmótaðs hugarfars. Míns eigins og annarra sem höfðu ákveðið of snemma í hverju ég væri góður og í hverju ég væri slakur. Í stað þess að einbeita mér að orsökinni fyrir því að mér gekk vel fór ég að einblína á afleiðingarnar. Það var engum að að kenna. Þannig voru hlutirnir bara í litlum skóla úti á landi fyrir þrjátíu árum þar sem fólk reyndi sitt besta og enginn hafði heyrt um Carol Dweck. Þannig eru hlutirnir líka ennþá á alltof mörgum stöðum, á alltof mörgum sviðum. Hæfileikar fá ekki að mótast, að reyna sig áfram, að mistakast, að endurtaka nógu oft til að fara að njóta sín.

Það kom mér skemmtilega á óvart þegar ég fékk A í stærðfræði í háskóla í Bandaríkjunum. Ég hugsaði með mér að þessir Bandaríkjamenn væru nú bara með alltof létt nám fyrst einhver sem var svona vitlaus í stærðfræði eins og ég gæti náð árangri. Í þessari andrá vanmat ég námið, skólann, skólafélagana og síðast en ekki síst sjálfan mig. Nú skil ég að ég var staddur á öðru sviði, þar sem ég fékk annað hlutverk. Enginn í Tennessee vissi að ég væri þessi sem gæti ekki lært stærðfræði. Kennarar og nemendur sögðu að það að læra stærðfræði væri bæði auðvelt og skemmtilegt ef maður bara legði sig fram. Og þess vegna gat ég það loksins.

 

Bill Murray

Í kvikmyndinni Groundhog Day leikur Bill Murray veðurfréttamann með fastmótað hugarfar. Hann festist í bænum Puxnatawney í Pennsylvaníu og þarf að endurtaka sama daginn aftur og aftur þar til hann öðlast vaxtarmiðað hugarfar. Í fyrstu bregst hann illa við þegar hann uppgötvar að hann þarf að byrja hvern dag á því að hlusta á I got you babe með Sonny og Cher og endurtaka sömu rútínuna aftur og aftur. Hann leitar að sökudólgum, skemmir fyrir sjálfum sér og öðrum og endar á að gefast upp. Hann tekur líf sitt en vaknar alltaf næsta dag á sama stað.

Það er ekki fyrr en hann fer að sjá tækifæri í endurtekningunni að hlutirnir breytast. Hann nýtir tækifærið og lærir ýmsa færni á borð við að spila tónlist og skera út ísskúlptúra. Þegar hann loks öðlast samkennd fyrir öðrum og ró fyrir hversdagsleikanum heldur lífið áfram með nýjum tækifærum.

Sami bíllinn

Carol Dweck kallar fastmótað hugarfar „framkvæmdastjóraveikina“ (CEO disease). Hún bendir á hinn goðsagnakennda Lee Iacocca sem stýrði Chrysler með mikilli velgengni á níunda áratugnum. Þegar toppinum var náð áttu Iacocca og fyrirtæki hans erfitt með að hugsa lengra. Í stað þess að vera í fararbroddi í breytingum á bílamarkaðinum hélt Chrysler áfram að gera það sem hafði gengið vel. Það framleiddi sömu bílana því það hafði jú gengið svo vel. Fyrirtækið og framkvæmdastjórinn stöðnuðu á meðan japanskir framleiðendur brunuðu framhjá. Markmiðið sem Iacocca setur Chrysler í auglýsingunni að ofan er dæmigert fyrir þá sem eru með fastmótað hugarfar. „Við ætlum að vera best. Hvað annað?“.

Vandinn er sá að það að vera bestur er teygjanlegt hugtak. Heimurinn breytist á ógnarhraða og það sem var best í gær er ekki endilega best í dag og hvað þá á morgun. Sagan er full af dæmum um fyrirtæki sem hafa misst leiðandi stöðu á markaði þegar tíminn hefur breytt skilgreiningunni á því hvað það væri að vera bestur í þeirra geira. Dweck bendir á að fastmótað hugarfar er áberandi í viðskiptalífinu, líklega vegna þess að fólk er oft ráðið í yfirmannastöður vegna þess sem það hefur gert en ekki vegna þess sem það gæti gert. Apple hélt til dæmis að John Scully myndi vera rétti aðilinn til að leiða fyrirtækið vegna þess að honum hafði gengið vel hjá Pepsico. Svo reyndist ekki vera.

Sömuleiðis ráða knattspyrnufélög oft fyrrverandi leikmenn til að vera þjálfarar vegna þess að þeim hafði gengið svo vel úti á vellinum. Jose Mourinho var gagnrýndur af Carlo Ancelotti fyrir að hafa ekki gert neitt sem leikmaður en svaraði fyrir sig með því að benda á að tannlæknirinn sinn væri sá besti í London þrátt fyrir að hafa aldrei fengið tannpínu. Simon Kuper og Stefan Szymanski segja í Soccernomics að helsti vandi knattspyrnumanna þegar þeir verða þjálfarar er einmitt sá að þeir vita nákvæmlega hvernig á að gera allt. Eðli þjálfunar sé hins vegar að vera sífellt að efast um víðteknar venjur og spyrja hvort hægt sé að gera betur. Þetta þýðir ekki að góðir knattspyrnumenn geti ekki orðið góðir þjálfarar, en þeir þurfa að temja sér hugarfar þjálfarans til að ná árangri. Alex Ferguson var til dæmis mun betri þjálfari en leikmaður á meðan Roberto Mancini var mun betri leikmaður en þjálfari. Hann mun hins vegar alltaf fá atvinnuviðtöl einfaldlega útaf því að hann er Roberto Mancini. Frábærir þjálfarar eins og Mourinho, Benitez og Villa Boas verða hins vegar að vonast til að fá tækifæri til að sanna sig og grípa það með báðum höndum þegar það gefst.

Að rækta garðinn sinn

Jim Collins hefur skrifað mjög áhugaverðar bækur á borð við Good to Great og Built to Last sem kallast á við kenningar Carol Dweck. Þar gefur hann eins og Simon Kuper og Stefan Szymanski í Soccernomics lítið fyrir áráttu fólks til að líta á persónutöfra sem leiðtogahæfni. Í staðinn bendir hann á að góðir leiðtogar hafi yfirleitt brennandi áhuga og þekkingu á viðfangsefni sínu og því að ýta upp fólki í kringum sig. Þeir rækta garðinn sinn í stað þess að reisa sér minnisvarða. Vandinn við það hvernig fyrirtæki, og sérstaklega þau stærstu velja sér starfsfólk og yfirmenn er að það er oftast byggt á því sem fólk er búið að gera. Þannig er fólk líka valið inn í menntaskóla og háskóla, af því að það hefur náð árangri í prófum og skilgreindum námsgreinum. Þannig byrjar fastmótun hugarfars mjög snemma í til dæmis Bretlandi þegar foreldrar gera sér grein fyrir því að maður kemst ekki í rétta háskólann nema að hafa verið í rétta grunnskólanum sem maður kemst ekki í nema að hafa verið í rétta leikskólanum. Slíkir foreldar eru nefndir CV-builders, þeir eru alltaf að byggja upp ferilskrá barnanna sinna. Á Íslandi sést þetta best þegar hið árlega harmakvein nýnema sem komst ekki inn í MR eða Versló byrjar að heyrast í fjölmiðlum. Sextán ára unglingar upplifa lokuð sund í lífi sínu vegna þess að þau komast ekki inn í þessa skóla. Það er óþarfi, einn besti borgarstjóri í heimi komst ekki inn á meðan sumir af slökustu bankamönnum samtímans fengu inngöngu. Það var ekki valið eftir því hvað fólk gæti mögulega gert í framtíðinni.

gnarr

Bestur?

Er Jón Gnarr einn besti borgarstjóri í heimi? Það veit enginn þar sem borgarstjóra-indexið er líklegast ekki til og væri svo væri erfitt að mæla árangur í Reykjavík miðað við La Paz, Róm og Lahore. Það er hinsvegar hægt að halda því fram með góðri samvisku að Jón Gnarr er besti borgarstjóri sem hann gæti orðið á sínum stað og sínum tíma. Hann hefur brennandi áhuga á borginni sinni og velferð hennar umfram eigin metorð. Þetta skilja margir pólitískir andstæðingar hans illa því vegferð þeirra hefur gengið út á að klífa metorðastiga. Það sem skiptir máli þegar fólk og hópar setja sér markmið, að vera eins góður og maður sjálfur getur orðið. Ef það tekst mun árangurinn ekki láta á sér standa og úrslitin fara að sjá um sig sjálf.

Næst: Hugarfar III – Vaxtarmiðað hugarfar

Hugarfar I – Þegar hæfileikar fá að njóta sín

Garfield menntaskólinn í Los Angeles var einn af verstu skólum borgarinnar á áttunda áratug síðustu aldar. Hann var staðsettur í rómönsku (latino) fátækrarhverfi þar sem margir nemendanna bjuggu við daprar aðstæður, voru ólæsir og áttu sér litla von um að ganga menntaveginn. Það kom því mörgum á óvart þegar þessir sömu nemendur voru allt í einu komnir á sama stall og jafnaldrar þeirra úr úrvals menntastofnunum frá efnuðustu svæðum austurstrandar Bandaríkjanna í stærðfræðigreiningu (calculus) fyrir lengra komna.

Kennararnir Jamie Escalante og Benjamin Jimenez breyttu ríkjandi hugarfari meðal nemenda og kennara skólans. Í stað þess að fallast hendur og samþykkja án athugasemda að nemendur Garfield menntaskólans væru einfaldlega heimskari eða lakari en aðrir veltu þeir fyrir sér hvernig en ekki hvort þau gætu lært stærðfræði.

Sögu Escalante voru gerð góð skil í kvikmyndinn Stand and Deliver þar sem Edward James Olmos fór með aðalhlutverkið. Fjöldi nemenda úr Garfield menntaskólanum sem gat náð í einingar á háskólastigi í stærðfræði var svo úr skjön við árangur annarra rómanskra nemenda í Bandaríkjunum að það var aðeins hægt að draga eina ályktun út frá tölunum.

Það var verið að sóa möguleikum alltof margra á að ná árangri. Hæfileikar rómanskra unglinga fengu ekki að njóta sín.

Carol Dweck

Fyrir skömmu hélt Ólafur Kristjánsson tölu fyrir starfsfólk knattspyrnudeildar Breiðabliks. Hann útlistaði hvaða atriðum hann væri að leita eftir þegar hann ætti að meta unga leikmenn. Efst á blaði var hugarfar. Ekki hæfileikar, ekki tæknileg geta, ekki líkamlegir burðir, heldur hugarfar.

Ef knattspyrnumenn eða konur eru komnir það langt að hægt er að bjóða þeim á æfingar með meistaraflokki Breiðabliks er hugarfar líklega sá þáttur sem mun skilja mest á milli. Það má til dæmis sjá á leikmönnum eins og Andra Yeoman, Sverri Inga Ingasyni og Árna Vilhjálmssyni sem hafa tekið mikið framfaraskref úr yngri flokkum upp í meistaraflokk undir leiðsögn þjálfarateymis meistaraflokks og eldri leikmanna liðsins. Þessir leikmenn, eins og fjöldi annarra sem hafa klæðst grænu treyjunni undanfarin ár hafa náð að vaxa eftir að á toppinn var komið í sínu félagi. Vonandi halda þeir áfram á sömu braut, ungir og efnlegir menn sem eru enn við dyragættina á fullorðinsferlinum. Sem yngri flokka þjálfari hef ég sjálfur lagt æ meiri áherslu á hugarfarsþjálfun, í svo miklum mæli að þrettán ára leikmenn mínir eru jafnvel farnir að skóla mig til þegar ég gleymi mér. Um daginn lét ég í mér heyra á æfingu þegar leikmenn voru ekki vissir um stöðuna í leik sem var í gangi. Ég fékk framan í mig að ég væri alltaf að segja að það væri frammistaðan sem skipti öllu máli og réttilega var frammistaðan til fyrirmyndar þegar þarna kom við sögu.

Hænan og eggið og allt það.

Hafir þú áhuga á hlutum á borð við þjálfun, árangri, markmiðasetningu, uppeldi eða sjálfshjálp er vert að hafa augastað á bandarískri konu að nafni Carol Dweck. Rannsóknir hennar við Stanford, Harvard, Columbia og University of Illinois hafa getið af sér bókina MindSet og vefsíður á borð við MindsetWorks. Ég á tvo góða vini sem bentu mér á hana þegar ég spurði þá hvað væri mikilvægasta vopnið í vopnabúrinu þeirra. Annar er íþróttasálfræðingur við IMG Academy í Flórída og hinn vinnur við viðamestu sálfræðirannsókn sem hefur verið gerð innan bandaríska hersins. Þeir sögðu báðir að hugmyndir hennar væru víða á floti og margir væru að vinna eftir þeim meðvitað og ómeðvitað eða að setja fram svipaðar kenningar, eins og Angela Duckworth (Grit), Malcolm Gladwell (Outliers), Daniel Coyle (The Talent Code) og Matthew Syed (Bounce). Carol Dweck hefði hinsvegar nálgast þær akademískt og fengið út niðurstöður sem næðu að binda þær saman.

Kenningar Dweck breyta ekki aðeins nálgun íþróttafólks og þjálfara heldur geta þær gefið víðari sýn á marga hluti. Næstu daga mun ég setja inn nokkra pistla um kenningar hennar og hvernig þær eru byrjaðar að breyta hugarfari í íþróttum og kennslu. Þær gætu jafnframt breytt hugarfari í viðskiptalífinu og stjórnmálum (alveg róleg samt). Dweck segir þær jafnframt gagnast við sambandsráðgjöf en skal ekki nánar fullyrt um það hér.

Grunnurinn að kenningum Dweck snúast um það að einstaklingar hafi eða velja sér annað hvort fastmótað eða vaxtarmiðað hugarfar. Það geti haft mikil áhrif á árangur þeirra í leik og starfi, lífsfyllingu og hamingju.

Fastmótað hugarfar – Fixed Mindset

Sumt fólk hefur fastmótaðar hugmyndir um hvað það getur og getur ekki. Það trúir því að hæfni sé meðfædd og takmörkuð auðlind. Þetta fólk er líklegast til að segja að sumir séu bara stærðfræðiheilar og aðrir ekki, og að einhverjir hafi fæðst með töfra í tánum sem geri þeim kleift að sóla alla upp úr skónum í fótbolta. Það sækir síður í krefjandi verkefni og reynir frekar að vera sem mest í þægindahringnum sínum þar sem því gengur vel. Fólk með fastmótað hugarfar sækir í verðlaun og viðurkenningar annarra til að svala metnaði sínum. Það þakkar meðfæddum eiginleikum sínum og æðri mætti fyrir góðan árangur og á það til að telja sig vera betri en aðrir vegna þeirra. Það kennir líka öðrum um ófarir sínar frekar en aðrir og forðast að gera mistök eins og heitan eldinn.

Gott dæmi um einstakling með fastmótað hugarfar er tennisstjarnan John McEnroe sem var bestur í heimi í fjögur ár en uppgötvaði eftir að ferlinum lauk að hann hefði aldrei notið þess sem hann afrekaði og að hann hefði líklega getað orðið ennþá betri með öðruvísi hugarfari. Í myndbandinu að ofan hagar hann sér eins og illa upp alinn óknyttastrákur þegar hlutirnir ganga ekki upp.

Vaxtarmiðað hugarfar – Growth Mindset

Hér trúir fólk því að hæfni sé hvorki meðfædd né takmörkuð auðlind heldur sé hún áunnin með þrautseigju og vinnusemi. Þetta fólk er líklegt til að vera lausnamiðað og sækja í verkefni sem ögra þeim. Fólk með vaxtarmiðað hugarfar fær ánægju úr ferlinu sem það er að vinna í, úr æfingum eins og leikjum og fyrir þeim eru úrslit, verðlaun og viðurkenningar afleiðing. Þegar það nær góðum árangri bendir það á að það hafi haft mikið fyrir árangrinum og þakkar oft fólki í kringum sig fyrir að styðja sig. Það leitar inn á við þegar illa gengur í stað þess að benda á aðra.

Gott dæmi um einstakling með vaxtarmiðað hugarfar er Michael Jordan sem hefur ætíð minnt aðdáendur sína á það hversu mikla vinnu hann lagði á sig til að verða góður í körfubolta. Í þessari auglýsingu gerir hann mistökin sín að styrkleika, alveg eins og Marco Van Basten sem sagði einu sinni að hann væri bestur vegna þess að hann hefði gert fleiri mistök heldur en allir aðrir.

Næst: Nánar um fastmótað hugarfar