Velkominn í fjórða flokk

Image

Ímyndaðu þér að þú sért að spila á knattspyrnuvelli sem er rúmlega 160 m á lengd og 110 m á breidd. Leiktíminn er 150 mínútur og það eru fjórtán í hvoru liði. Sumir þeirra eru 2.10m á hæð.

Velkominn í fjórða flokk.

Í fjórða flokki leika leikmenn sem eru fæddir í janúar 2000 og desember 2001. Þeir stærstu og sterkustu eru orðnir fullvaxnir einstaklingar, þeir minnstu eru börn að vexti. Þroskamunurinn er gífurlegur. Sumir eru nýkomnir af N1 mótinu, aðrir eru nýkomnir með skeggrót. Samkvæmt núverandi keppnisfyrirkomulagi KSÍ er öllum steypt í sama mót, 11 í liði á heilan völl í 70 mínútur. Á þessum tíma er líklegt að íþróttin missi af hæfileikafólki sem gefst upp eða dregst afturúr þar sem verkefnin eru ekki við hæfi. Það er ekkert grín að glíma við Arnold Schwarzenegger í hverjum leik.

Fjórði flokkur er enn erfiðari fyrir B og C liðs leikmenn og leikmenn lítilla liða en skyldi vegna tveggja þátta. Annars vegar að raðað er í styrkleika eftir árangri árganganna  á undan og því getur öflugt lið sem kemur á eftir slakari árgangi lent í of léttum riðli. Að auki eru oft öflugir fimmta flokks leikmenn að spila með B og C liðum og þeir yfirtaka leikinn á kostnað þeirra sem þurfa að hafa boltann oftar, læra og þroskast.

Eftirfarandi er hægt að gera til að breyta þessu fyrirkomulagi;

–       Spila í árgöngum í stað flokka. Þannig myndi aðeins vera eins árs bil frekar en tveggja í þroska. Minni lið sem ná ekki í heilt lið í árgangi gætu enn notað yngri leikmenn, en stærri lið þyrftu það ekki.

–       Spila sig inn í styrkleika yfir árið samkvæmt mótafyrirkomulagi Shellmóts og Símamóts.

–       Bjóða upp á 11v11 og 9v9 keppnir í 4. flokki. Þjálfarar myndu svo ráða hvar þeir myndu skrá lið sín. 9v9 yrði spilað teig í teig. Hægt væri að stilla upp í fjögurra manna varnarlínu með bakverði sem taka framhjáhlaup, þriggja manna miðju og target-senter. Þetta myndi minnka hlaup og auðvelda kennslu í grunnþáttum knattspyrnunnar.

Fjórði flokkur er mjög mikilvægur vegna kennslunnar sem þar á að fara fram. Og leikir í yngri flokkum eru einfaldlega æfingar þar sem leikmenn eru að öðlast hæfni og læra. Kennslan fer þó oft út í veður og vind vegna of mikilla langhlaupa og ójafnrar líkamlegrar baráttu. Reyndir þjálfarar geta örugglega nefnt þó nokkur dæmi um leikmenn sem höfðu töluverða hæfni en urðu undir vegna þess að þeir voru seinni að taka út líkamlegan þroska. Einn allra besti drengur sem ég hef þjálfað hætti þrettán ára af þessum sökum. Það væri gaman að sjá hann í dag ef hann hefði haldið áfram. Það hlýtur að vera hægt að gera betur.

4 Responses to Velkominn í fjórða flokk

 1. Þórhallur says:

  Sælir
  Nokkur atriði sem ræða má í kjölfar pistilsins.

  Skil reyndar ekki þennan hræðsluáróður hjá þér varðandi 4.flokkinn (leikmenn 2.10 og leiktími 150 mínútur). Því fyrir mér snýst 4.flokkurinn klárlega ekki um það.

  4.flokkurinn á ekki að líða fyrir þjálfara sem nota 5.flokks stráka til að ná úrslitum, sú gagngrýni á að fara á þjálfarana sjálfa. Ég hef sjálfur notað bestu 5.flokks stráka í 2-3 leiki yfir veturinn og aftur yfir sumarið, til þess að veita þeim verkefni fyrir OFAN sína getu. Varðandi B og C lið, þá held ég að þjálfarar ættu að geta stjórnað jafnvægi leikja mun betur, í stöðunni 3-0 taka besta manninn útaf, fjölga í hinu liðinu, fækka í betra liðinu, minnka leiktímann o.s.frv., það eru bara því miður margar sigurþennkjandi eðlur í þjálfuninni.

  Varðandi skiptingu í deildir eða riðla er hins vegar þáttur sem má ræða frekar.
  – Árgangapæling tel ég ekki góða. Tel það myndi litlu breyta. Nema kannski að fámenn félög þyrftu að láta drengi sína spila tvöfallt yfir tímabilið (ofþjálfun?). Strákar í 4.flokki eiga að æfa meira en þeir spila, þannig að það væri ekki heppilegt.
  – Það að spila sig inn í riðla yfir veturinn gefur ekki rétta mynd af styrkleika yfir sumarið. Gef sem dæmi að 4.fl Stjörnunnar tapaði samanlagt með markatölunni 1-26 fyrir þrem liðum í Faxaflóamóti, en yfir sumarið fóru leikir gegn þessum sömu liðum með markatöluna 7-5 Stjörnunni í hag og 7 stig í pokann. Æfingaleikir/faxaflóaleikir gefa ekki rétta mynd af getu liða.
  – Það að spila 9-9 er ágætispæling. Hins vegar má velta fyrir sér hvort það að minnka völlinn aðeins og fækka leikmenn að sömu hlutföll séu að eiga sér stað inná vellinum.

  Persónulega myndi ég láta árangur hjá árgöngunum í flokk fyrir neðan gilda, það er tvem árum áður. Held að það myndi gefa niðurstöður sem er næst því að vera heppilegust. Þjálfarar gætu síðan sótt um að flytja lið sín upp og niður um flokka séu góð rök fyrir því.

  Það að þjálfarar geti ekki fundið verkefni við hæfi fyrir leikmenn sína er miður, sérstaklega ef flokkar eru fjölmennir er það ákveðinn dómur á þjálfarana/félagið. Fámenn félög lenda kannski verr í þessu en einhversstaðar verður 11 manna bolti að hefjast. Úrslit og árangur í 4.flokki hefur og verður líklega aldrei forsenda fyrir framtíðarmöguleikum einstaklinga. Þar er hlutverk þjálfara og liða að útskýra það fyrir drengjum. Það þýðir samt ekki að 4.flokkur sé stanslaust davíð á móti golíat rugl eins og ýjað er að hér að ofan. Grunnkennsla varðandi taktík á stóran völl og leikfræði hugmyndir eru lagðar á þessum árum ásamt nýjum þjálfunarþáttum sem kynntir eru til sögunar.

  Nú hef ég þjálfað 4.flokk allt frá C-deild til Íslandsmeistara. Hvoru megin sem er á skalanum þar sem ég hef þjálfað hefur starfið gengið nokkuð smurt. Þetta snýst um að finna einstaklingum verkefni við hæfi og upplýsa þá á sama tíma. Þannig að þeir séu ekki stanslaust að fá röng svör úr umhverfinu eins og lýst er hér að ofan.

  Þórhallur Siggeirsson

 2. whosyourdadi says:

  Takk Þórhallur, taka ber fram að þetta er ekki ætlað sem hræðsluáróður heldur til að útskýra muninn á líkamlegum eiginleikum sem kemur mestur fram á þessum aldri. Meira en í 6. – 5. flokki og 3. og uppúr.

  Punkturinn er einfaldlega að bjóða upp á fleiri lausnir ef markmiðið á að vera að fá fleiri betri leikmenn upp.

 3. Siggi Raggi says:

  Góðir punktar hjá Þórhalli og sýnir að málið er kannski ekki svona einfalt. Allar breytingar þarf að skoða hvort henti litlum félögum jafnt sem stórum. Landbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu svo fótboltinn megi dafna um allt land. Hugmyndin um að árangur liða fyrir 2 árum telji frekar en árangur árgangsins fyrir ofan finnst mér mjög athyglisverð og það hefði virkað mun betur t.d. fyrir mig því þegar ég var sjálfur í 3.flokki á eldra ári var ég í Íslandsmeistaraliði KR en fór svo upp í 2. flokk og þar byrjuðum við í B-riðli og fengum bara 2 góða leiki allt sumarið því 2. flokkurinn hafði fallið árið áður því þar voru slakari árgangar. Á miðárinu í 2. flokki urðum við svo aftur Íslandsmeistarar svo við töpuðum heilu ári má segja og unnum þar leiki mjög stórt og aðeins ÍBV gat veitt okkur keppni.
  Þurfum endilega að skoða þetta betur.

 4. Bakvísun: Keppnisfyrirkomulag yngri flokka | Snorri Örn

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: