Hvaða foreldravandi?

Image
Besta liðsmyndin. Foreldrar og systkini sem fylgja hvert á land sem er eru mikilvægur hluti liðsins.

“Dómari, ertu með forhúð fyrir augunum?”

– Foreldri í leik í 7. flokki kvenna á Símamóti 2011.

Sem markaðsfræðingi finnst mér fátt neikvæðara en “gula spjaldið” sem nokkur félög, þar á meðal Breiðablik gáfu út fyrir nokkrum árum og er afhent foreldrum barna í knattspyrnu við ýmis tækifæri.

Í fyrsta lagi hefur gula spjaldið í sér neikvæða skírskotun. Það er áminning vegna neikvæðrar hegðunar. Í staðinn ættu félög og KSÍ að leggja áherslu á foreldrabæklinginn þar sem foreldrar eru fræddir um íþróttaiðkun barna og unglinga. Ekki áminntir heldur upplýstir. (leiðrétting: ég var búinn að gleyma að þessi bæklingur væri yfirhöfuð til en Eysteinn Húni Hauksson benti mér á hann)

Það verður að gera greinarmun á því hvort foreldrar séu að hafa truflandi áhrif á starf þjálfara og íþróttaiðkun barna sinna eða hvort þau séu virkir og öflugir þátttakendur.

Í öðru lagi hefur það komið mér á óvart í starfi yfirþjálfara stærstu knattspyrnudeildar landsins hversu lítill “foreldravandinn” raunverulega er. Í þessu sem og mörgum öðrum kimum mannlífsins eru það fáir sem koma slæmu orði á marga. Í raun hef ég með árunum fyllst æ meiri lotningu gagnvart því dýrmæta starfi sem foreldrar og forráðamenn vinna í íþróttum barna og unglinga. Án þess væru íþróttir á Íslandi fátækari og árangurinn eftir því.

Í fyrra reiknaði ég út fjölda atvika þar sem raunverulega var um vandamál að ræða. Þau skilgreindi ég sem atvik og aðila sem höfðu truflandi áhrif á starfið, þjálfara og iðkendur. Þessi vandamál eru af ýmsum toga, frá því að hafa ógnandi tilburði við dómara, ráðast að þjálfurum, að reyna að hafa áhrif á liðsval með hótunum og skömmum, hótanir gagnvart iðkendum osfrv. Þá kom í ljós að 99,4% foreldra eru upp til hópa til fyrirmyndar, styðja starfið með ráðum og dáðum og bera harm sinn allavegana í hljóði ef einhver er. Þau 0,6% sem valda usla eru svo flest auðveld viðureignar þegar á reynir. Í raun má segja að uppistaða raunverulegs foreldravanda séu einstaklingar sem telja má með fingrum annarar handa og 90% af tímanum sem fer í að takast á við vandann fer í þá. Það sem þessir foreldrar eiga sameiginlegt er oftast vanþekking á viðfangsefninu. Þeir meta íþróttir barna sem þær væru íþróttir fullorðinna. Á meðan vel gengur er allt í lagi, en þegar á móti blæs fer allt í hönk. Í mörgum flokkum má hins vegar finna foreldra með landsleiki og atvinnumennsku að baki. Í þeim heyrist aftur á móti nær aldrei múkk. Þeir skilja að þetta snýst um ferilinn sjálfann, leikgleði, ástundun og innri áhugahvöt iðkenda. Raunverulegur árangur sprettur af þrotlausri vinnu og takmarkalausum áhuga.

Það verður að gera greinarmun á því hvort foreldri sé að trufla eða ógna eða hvort hann hafi spurningar eða vilji koma athugasemdum á framfæri. Neikvæð umræða um þátttöku foreldra í íþróttum barna hefur leitt til þess að langflestir sem hringja eða koma með athugasemdir afsaka sig í bak og fyrir vegna þess. En það sem yfirleitt skortir eru upplýsingar og útskýringar. Þeir þjálfarar sem halda opna og ítarlega foreldrafundi í byrjun tímabils eru líklegri til að lenda í litlum árekstrum við foreldra heldur en þeir sem eru illa undirbúnir og skipa eingöngu fyrir. Við vitum einnig að baktal og pirringur fylgir þjálfarastarfinu. Við erum að vinna með dýrmætustu gripi fólks og þar verður sjónarhornið þröngt á meðan starfið krefst þess af okkur að hafa það vítt. Góð samskipti í báðar áttir hjálpa til fyrir barnið.

En foreldravandinn er að mínu mati ýktur. Hann er það vegna þess að þessi fáu tilvik sem koma upp eru yfirleitt svo yfirgengileg að þau sitja meira í fólki heldur en það sem vel er gert, því miður. Það má ekki skyggja á það mikilvæga hlutverk sem foreldrar spila í íþróttum barna og unglinga, þar sem laun heimsins eru oft vanþakklæti alveg eins og í þjálfarastarfinu.

Þrjú heilræði: 

Barnið þitt nær árangri ef það hefur sterka innri áhugahvöt og stundar íþróttina vegna þess að hún færir því gleði. Árangur er afstæður í íþróttum barna og unglinga vegna líkamlegs og andlegs misþroska keppenda. Góðir barna og unglingaþjálfarar leggja áherslu á færni og hæfni. Þar sem það er óáþreifanlegra en medalía og bikar verður oft erfitt að greina á milli. Raunverulegur árangur felst í að stunda íþróttina

Þitt hlutverk er að styðja, auka gleði og draga úr kvíða. Ef barnið þitt vill fara á æfingar og sýnir íþróttinni áhuga þá er það á réttum stað. Hæfni og færni koma með innri áhugahvöt. Það krefst mikillar vinnu og ástundunar að verða góður. Enginn leggur það sem til þarf á sig nema það sé skemmtilegt. Stuðningur fjölskyldu skiptir gríðarlega miklu máli.

Án dómara væri enginn leikur. Dómarar gera mistök. Það gera leikmenn, þjálfarar og foreldrar líka. Allir ættu að spyrja sig hvort þeir væru til í að sæta sömu framkomu og dómarar verða í sínu starfi (sem er oftast sjálfboðaliðastarf) þegar þeir gera sjálfir mistök. Sjálfur væri ég bara hættur að elda heima hjá mér ef konan mín hefði öskrað “HVAÐ ERTU EIGINLEGA AÐ PÆLA MAÐUR? TAKTU NÚ HAUSINN ÚT ÚR RASSGATINU Á ÞÉR! ER EKKI Í LAGI HEIMA HJÁ ÞÉR?” þegar ég klúðraði kjúklingnum um daginn.

Þess vegna eru þeir strákarnir okkar

photo (22)

Tíu þúsund manns í sama liði

Þegar fólk nær árangri og kemst fyrir vikið í kastljós fjölmiðla er oft einblínt á sigur einstaklingsins yfir sjálfum sér eða öðrum. Það er góð saga, en einungis hálf sögð. Gylfi Sigurðsson átti bróður sem tók hann á endalausar séræfingar og pabba sem hvatti þá til að fara út og hlaða í einn magnaðasta skotfót Íslandssögunnar. Þeir keyrðu á æfingar í Kópavogi til að geta æft inni yfir veturinn með góðu liði og fylgdu honum úr hlaði hjá Reading. Á bak við Gylfa Sigurðsson er fjöldi fólks í FH, Breiðabliki og Reading ásamt kröftugri fjölskyldu sem fylgdi honum úr hlaði. Kolbeinn Sigþórsson, Jóhann Berg Guðmundsson, Alfreð Finnbogason og flestir aðrir sem klæðast landsliðstreyjunni í kvöld komust á toppinn vegna eigin dugnaðar og þrautsegju, og fjölskyldu og samfélags sem styður gríðarlega vel við knattspyrnu.

Við erum ekki að greiða fyrir einn – heldur hundrað

Þess vegna leggja UEFA og FIFA áherslu á að uppeldisbætur séu hluti af söluverði leikmanna. Á námskeiðum sínum um félagsskiptasamninga segja þeir að ekki sé verið að greiða fyrir einn leikmann, heldur þá hundrað sem þurfti til að koma honum til manns. Án grasrótarfótbolta eru ekki efnileg börn sem verða að athyglisverðum unglingum sem enda sem atvinnumenn.

Image

3. flokkur karla 2005. Öflugt bakland og frjór jarðvegur. Afrekaskrá leikmanna flokksins síðan þá er með ólíkindum.

Það er gaman að segja sögur af ofurmennum. Af fólki sem meikaði það þrátt fyrir umhverfið sitt. Sumir jafnvel trúa því sjálfir að þeir hafi komist á toppinn af sjálfsdáðum. Þeir sem ná alla leið í bláu treyjuna hafa svo sannarlega eiginleika sem gera þeim kleift að nýta sína hæfileika til fulls. Þú munt sjaldan hitta fólk sem er jafn einbeitt í að ná árangri í sinni grein eins og Gylfi Sigurðsson er í að ná árangri í knattspyrnu.

Þegar Ásgeir Sigurvinsson náði alla leið á toppinn frá Vestmannaeyjum 7.-8. áratugarins má með sanni segja að hann hafi komist langt þrátt fyrir aðstæður. En í dag er öldin önnur. Landslið fullt af ungum íslenskum drengjum sem þora að skora þá bestu á hólm bera vitni um aðstæður sem hvetja til árangurs;

  • Stuðningur foreldra og fjölskyldu.
  • Hvatning og leiðbeining frá fjölda þjálfara.
  • Brýning af hendi ótal liðsfélaga.
  • Mótherjar sem ögra manni og reyna á mann.
  • Stjórnarmenn sem gefa mikla vinnu til að halda félaginu sínu gangandi.
  • Skattgreiðendur sem tryggja öruggt samfélag til að alast upp í og byggja gervigrasið, sparkvellina og knatthallirnar.
  • Sjálfboðaliðar sem þvoðu búninga, héldu fjáraflanir, söfnuðu pening og héldu mót.
  • Dómarar sem mættu í leiki.
  • Fjölmiðlamenn sem fjalla um íþróttina.
  • Vallarstarfsmenn sem slá grasið og starfsmenn sem halda íþróttahúsum gangandi.

Þess vegna eru þeir strákarnir okkar.

5flsumar2013

Hluti 5. flokka karla og kvenna í Breiðabliki.

Velkominn í fjórða flokk

Image

Ímyndaðu þér að þú sért að spila á knattspyrnuvelli sem er rúmlega 160 m á lengd og 110 m á breidd. Leiktíminn er 150 mínútur og það eru fjórtán í hvoru liði. Sumir þeirra eru 2.10m á hæð.

Velkominn í fjórða flokk.

Í fjórða flokki leika leikmenn sem eru fæddir í janúar 2000 og desember 2001. Þeir stærstu og sterkustu eru orðnir fullvaxnir einstaklingar, þeir minnstu eru börn að vexti. Þroskamunurinn er gífurlegur. Sumir eru nýkomnir af N1 mótinu, aðrir eru nýkomnir með skeggrót. Samkvæmt núverandi keppnisfyrirkomulagi KSÍ er öllum steypt í sama mót, 11 í liði á heilan völl í 70 mínútur. Á þessum tíma er líklegt að íþróttin missi af hæfileikafólki sem gefst upp eða dregst afturúr þar sem verkefnin eru ekki við hæfi. Það er ekkert grín að glíma við Arnold Schwarzenegger í hverjum leik.

Fjórði flokkur er enn erfiðari fyrir B og C liðs leikmenn og leikmenn lítilla liða en skyldi vegna tveggja þátta. Annars vegar að raðað er í styrkleika eftir árangri árganganna  á undan og því getur öflugt lið sem kemur á eftir slakari árgangi lent í of léttum riðli. Að auki eru oft öflugir fimmta flokks leikmenn að spila með B og C liðum og þeir yfirtaka leikinn á kostnað þeirra sem þurfa að hafa boltann oftar, læra og þroskast.

Eftirfarandi er hægt að gera til að breyta þessu fyrirkomulagi;

–       Spila í árgöngum í stað flokka. Þannig myndi aðeins vera eins árs bil frekar en tveggja í þroska. Minni lið sem ná ekki í heilt lið í árgangi gætu enn notað yngri leikmenn, en stærri lið þyrftu það ekki.

–       Spila sig inn í styrkleika yfir árið samkvæmt mótafyrirkomulagi Shellmóts og Símamóts.

–       Bjóða upp á 11v11 og 9v9 keppnir í 4. flokki. Þjálfarar myndu svo ráða hvar þeir myndu skrá lið sín. 9v9 yrði spilað teig í teig. Hægt væri að stilla upp í fjögurra manna varnarlínu með bakverði sem taka framhjáhlaup, þriggja manna miðju og target-senter. Þetta myndi minnka hlaup og auðvelda kennslu í grunnþáttum knattspyrnunnar.

Fjórði flokkur er mjög mikilvægur vegna kennslunnar sem þar á að fara fram. Og leikir í yngri flokkum eru einfaldlega æfingar þar sem leikmenn eru að öðlast hæfni og læra. Kennslan fer þó oft út í veður og vind vegna of mikilla langhlaupa og ójafnrar líkamlegrar baráttu. Reyndir þjálfarar geta örugglega nefnt þó nokkur dæmi um leikmenn sem höfðu töluverða hæfni en urðu undir vegna þess að þeir voru seinni að taka út líkamlegan þroska. Einn allra besti drengur sem ég hef þjálfað hætti þrettán ára af þessum sökum. Það væri gaman að sjá hann í dag ef hann hefði haldið áfram. Það hlýtur að vera hægt að gera betur.